Liverpool og Chelsea skellt

Coutinho var rekinn af velli í dag.
Coutinho var rekinn af velli í dag. AFP

Sex leikjum var að ljúka í ensku úrvalsdeildinni rétt í þessu og voru nokkur óvænt úrslit. Liverpool beið óvænt lægri hlut fyrir West Ham, 3:0, á Anfield og Chelsea tapaði 2:1 fyrir Crystal Palace á Stamford Bridge. Fylgst var með gangi mála á ENSKA BOLTANUM Í BEINNI hér á mbl.is

West Ham United heldur áfram góðu gengi á útivelli gegn stórliðunum með 3:0 sigri á Liverpool, en Hamrarnir unnu 2:0 útisigur á Arsenal í fyrsta leik liðsins á tímabilinu.

Manuel Lanzini kom gestunum í forystu strax á þriðju mínútu leiks þegar hann skoraði af stuttu færi eftir að Skrtel tókst ekki að skalla boltann frá hættusvæðinu. Mark Noble bætti öðru markinu við á 29. mínútu eftir að Dejan Lovren tapaði boltanum á hættulegum stað. Staðan var því 2:0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn einkenndist af spjaldagleði Kevin Friend dómara. Bæði Philippe Coutinho og Mark Noble voru reknir af velli. Coutinho fékk að líta tvö gul spjöld en Noble fékk beint rautt. Coutinho verður því ekki með þegar Liverpool mætir Manchester United.

West Ham gekk endanlega frá Liverpool á mínútu með marki Diafra Sakho, enn og aftur eftir slakan varnarleik Liverpool-manna. Lokatölur voru 3:0 fyrir West Ham sem klifrar upp í 7. sæti deildarinnar.

Ekki var dagurinn góður hjá Englandsmeisturum Chelsea en liðið tapaði 2:1 fyrir Crystal Palace á Stamford Bridge. Þetta er annar tapleikur Mourinho á heimavelli í 100 heimaleikjum sem knattspyrnustjóri félagsins. 

Bakary Sako kom Crystal Palace í forystu á 65. mínútu með marki af stuttu færi. Það var síðan Radamel Falcao sem jafnaði metin fyrir Chelsea með flugskalla eftir fyrirgjöf frá Pedro á 79. mínútu. Þetta var fyrsta mark Kólumbíumannsins fyrir Chelsea. Það dugði þó skammt því Joel Ward kom Palace aftur í forystu á 81. mínútu og þar við sat. Crystal Palace vann mikilvægan sigur og er komið upp í 2. sæti úrvalsdeildarinnar, ótrúlegt en satt.

Manchester City hélt toppsætinu með öruggum 2:0 sigri á nýliðum Watford. Raheem Sterling skoraði sitt fyrsta mark fyrir City á 47. mínútu eftir góða fyrirgjöf frá Bacary Sagna. Fernandinho bætti síðan öðru markinu við á 56. mínútu með góðu skoti eftir sendingu frá galdramanninum David Silva. 

Stoke City tapaði 1:0 fyrir WBA á heimavelli og er komið í hættulega slaka stöðu á töflunni. Tveir leikmenn Stoke voru reknir af velli snemma leiks, Ibrahim Afellay og Charlie Adam, og voru báðir dómarnir harðir. Jose Salomon Rondon skoraði eina mark leiksins á 45. mínútu og WBA klifrar upp úr fallsæti.

Aston Villa og Sunderland skildu jöfn, 2:2, í frábærum leik á milli liða sem gætu verið í fallbaráttu á komandi tímabili. Sunderland er á botni deildarinnar með 2 stig og Villa er í 12. sæti með 4 stig. Scott Sinclair skoraði bæði mörk Aston Villa en Yann M'Vila og Jeremain Lens gerðu mörk Sunderland.

Leicester City og Bournemouth skildu einnig jöfn, 1:1. Leicester hefur átt góða byrjun og er í 3. sæti úrvalsdeildarinnar. Callum Wilson kom nýliðum Bournemouth yfir en Jamie Wardy jafnaði fyrir Leicester úr vítaspyrnu rétt fyrir leikslok.

Raheem Sterling fagnar fyrsta marki sínu fyrir Manchester City.
Raheem Sterling fagnar fyrsta marki sínu fyrir Manchester City. AFP
Joel Ward fagnar sigurmarkinu.
Joel Ward fagnar sigurmarkinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert