Morrison sorglegasta tilfellið

Ravel Morrison var seldur til West Ham frá Manchester United.
Ravel Morrison var seldur til West Ham frá Manchester United. AFP

Sir Alex Ferguson, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United á Englandi, þjálfaði marga unga og efnilega leikmenn á tíma sínum hjá félaginu en nokkrir leikmenn náðu aldrei hæstu hæðum þar sem andlega hliðin var ekki í lagi.

Ravel Morrison, sem leikur nú með Lazio á Ítalíu, er líklega sorglegasta tilfellið á þjálfaraferli Ferguson, en hann var alltaf að koma sér í vandræði utan vallar. Ferguson gafst upp á honum árið 2012 og seldi hann til West Ham en hann fékk fá tækifæri þar og var lánaður til þriggja félaga á þessum þremur árum sínum þar.

Lazio fékk hann til félagsins á þessu ári en hann hefur gert ágætis hluti með liðinu en Ferguson missti þolinmæðina er hann var hjá Manchester United.

„Það eru til dæmi um leikmenn sem eru með svipaðan bakgrunn og Ryan Giggs og Cristiano Ronaldo en eru bara ekki nógu sterkir andlega til þess að komast yfir erfiða æsku,“ sagði Ferguson.

„Sorglegasta tilfellið er líklega Ravel Morrison. Hann var einhver sá hæfileikaríkasti sem ég hef þjálfað en hann var alltaf að koma sér í vandræði utan vallar. Það var því mjög sárt að þurfa að selja hann árið 2012 því hann hefði getað orðið frábær leikmaður,“ sagði Ferguson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert