„Rodgers fékk nægan tíma“

Brendan Rodgers, fyrrum knattspyrnustjóri Liverpool.
Brendan Rodgers, fyrrum knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Tom Werner, framkvæmdastjóri Liverpool á Englandi, segir að Brendan Rodgers, fyrrum knattspyrnustjóri félagsins, hafi fengið þann tíma sem hann þurfti til þess að ná árangri.

Rodgers var rekinn eftir 1:1 jafntefli liðsins gegn Everton í nágrannaslag síðustu helgi en hann stýrði liðinu í þrjú ár.

Jürgen Klopp var ráðinn stjóri félagsins í gær en hann skrifaði undir þriggja ára samning. Það kom einhverjum í opna skjöldu að Rodgers hafi verið látinn fara svona snemma á tímabilinu í ljósi þess að hann fékk að eyða miklum fjárhæðum í leikmenn í sumar.

„Þegar við ákváðum að ráða Rodgers þá töldum við hann vera rétta manninn í starfið. Núna finnst okkur við vera með heimsklassa þjálfara og það er svo sem ekki mikið sem hægt er að segja meira um það,“ sagði Werner sem opnaði sig þó.

„Við gáfum Brendan tækifæri á að bæta stöðuna eins og þið vitið. Liðið spilaði mjög vel í sumum leikjum á síðustu leiktíð en liðið spilaði líka mjög illa í mörgum þeirra.“

„Staðan er eins og hún er og ég vil ekki tjá mig mikið meira um það. Brendan er frábær þjálfari en við ákváðum að fara með liðið í aðra stefnu og ég er mjög bjartsýnn á framhaldið,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert