Erfiðara að brenna af en skora (myndskeið)

Eggert Gunnþór Jónsson, til hægri, í leiknum í kvöld.
Eggert Gunnþór Jónsson, til hægri, í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Fleetwoodtownfc.com

Eggert Gunnþór Jónsson var valinn maður leiksins í kvöld þegar Fleetwood sigraði Millwall, 2:1, í ensku C-deildinni í knattspyrnu en eins og áður kom fram skoraði Eggert fyrra mark liðsins í þessum mikilvæga sigri og jafnframt sitt fyrsta fyrir félagið.

Fleetwood vann annan leik sinn í röð, eftir að hafa verið næstneðst í deildinni fyrir síðustu helgi, en nú er liðið í 17. sæti af 24 liðum og tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

„Sigurinn var aðalatriðið því nú höfum við náð að vinna tvo leiki í röð og þetta er frábær kafli hjá okkur. Við höfum bætt okkur verulega sem lið, og í kvöld spiluðum við virkilega vel í fyrri hálfleik en vorum óheppnir að vera ekki að minnsta kosti tveimur mörkum yfir. Þetta var meiri barningur í seinni hálfleik en þá sýndum við aðra hlið á okkur," sagði Eggert við vef Fleetwood.

„Markið var reyndar afar einfalt og það hefði verið erfiðara að brenna af en að skora, en þetta gerðist snöggt og ég rak bara hausinn í boltann," sagði Eskfirðingurinn um markið en hann kom Fleetwood yfir um miðjan síðari hálfleik.

Fleetwood mætir Blackpool í grannaslag um næstu helgi en Blackpool er fimm stigum neðar í næstneðsta sæti deildarinnar.

Markið hans Eggerts má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert