Stjóri Gylfa hraunar yfir dómarann

Alan Curtis ósáttur á hliðarlínunni í kvöld.
Alan Curtis ósáttur á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Alan Curtis, knattspyrnustjóri Swansea, var allt annað en sáttur við dómara leiksins í 4:2-tapi liðsins gegn Sunderland í botnbaráttuslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

„Dómarinn gerði vitleysu í öllum helstu ákvörðunum sínum í kvöld. Fyrsta markið og þriðja mark þeirra voru greinilegar rangstöður. Þú getur vissulega komið til baka, en að þurfa að spila með tíu leikmenn í klukkutíma drap okkur meira en allt annað í þessum leik,“ sagði Curtis, en Kyle Naughton fékk að líta rautt spjald í fyrri hálfleik.

„Mér fannst það harður dómur þegar ég sé það fyrst og að skoða það á myndbandi sýndist mér hann vinna boltann. Annað atvik sem dómarinn klúðrar gjörsamlega,“ sagði Curtis.

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði fyrra mark Swansea í leiknum af vítapunktinum og jafnaði metin í 1:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert