Lítill áhugi á Evrópuleik á Old Trafford

Old Trafford tekur 75.635 manns í sæti.
Old Trafford tekur 75.635 manns í sæti. AFP

Forráðamenn Manchester United virðast ekki gera sér neinar vonir um að það verði uppselt á Old Trafford þegar danska liðið Midtjylland mætir á svæðið í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar þann 25. febrúar.

Samkvæmt frétt Daily Mirror hefur United ákveðið að sleppa því að selja miða í 5.000 sæta röð í þeim hluta leikvangsins sem nefndur er eftir Sir Alex Ferguson. Stuðningsmenn geta ekki keypt miða í þessari röð og þeir sem höfðu þegar fengið miða þar hafa fengið bréf þess efnis að þeim hafi verið úthlutað nýju sæti á betri stað. Með þessu er ætlunin að þéttar sé setið annars staðar á vellinum.

Forráðamenn United vonuðust til þess að auka sölu miða með því að lækka verð um 25% en það skilaði takmörkuðum árangri.

Á síðustu árum var það einmitt á leik í Evrópudeildinni sem fæstir áhorfendur mættu á Old Trafford, en aðeins 59.265 sáu 3:2-tapið gegn Athletic Bilbao árið 2012. Óttast er að enn færri mæti á leikinn við Midtjylland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert