Breytast fimm pund í 25 þúsund pund?

Leikmenn Leicester fagna marki gegn Manchester City um síðustu helgi. …
Leikmenn Leicester fagna marki gegn Manchester City um síðustu helgi. Verða þeir enskir meistarar? AFP

Leigh Herbert, 38 ára stuðningsmaður Leicester í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, verður 25 þúsund pundum ríkari (4,6 milljónir íslenskra króna) ef Leicester verður enskur meistari í knattspyrnu í vor.

Herbert veðjaði fimm pundum síðasta haust á að hans menn myndu vinna ensku úrvalsdeildina og stuðullinn á því að það myndi gerast var 5000-1. Líkurnar hafa heldur betur aukist en eftir leiki síðustu helgar er Leicester á toppi deildarinnar, fimm stigum á undan Tottenham og Arsenal.

Herbert hefur neitað því að taka út peningana núna, sem myndi tryggja honum 3200 pund (tæpar 600 þúsund íslenskar krónur). „Jafnvel þó þeir verði ekki meistarar þá hefur þetta svo sannarlega verið fimm punda virði,“ sagði Herbert í samtali við BBC.

„Ég fylgdist vel með liðinu á síðasta tímabili og fannst þeir ekki leika illa. Þegar Ranieri var ráðinn þá bjóst ég við einhverju frá liðinu.“

Herbert segist ætla að eyða peningunum skynsamlega, fari svo að hans menn í Leicester verði meistarar. „Ég er trúlofaður og langar að giftast kærustunni minni. Einnig væri gaman að eiga fyrir innborgun á íbúð en ég hef verið á leigumarkaðnum hingað til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert