„Ekta stuðningsmenn styðja Depay“

Memphis Depay.
Memphis Depay. AFP

Memphis Depay, leikmaður Manchester United á Englandi, hefur átt erfitt uppdráttar á sínu fyrsta tímabili með liðinu en hann kom til félagsins frá hollenska meistaraliðinu PSV Eindhoven.

Þessi frábæri leikmaður átti magnað tímabil með PSV á síðustu leiktíð en hann gerði 28 mörk í 40 leikjum liðsins og var titlaður sem næsta stórstjarna Hollands.

Manchester United festi kaup á honum síðasta sumar fyrir um það bil 25 milljónir punda en hann hefur engan veginn staðist þær væntingar sem gerðar voru til hans. Hann hefur leikið 30 leiki á tímabilinu og gert 5 mörk en hann hefur ekki átt fast sæti í liðinu á leiktíðinni.

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri United, er óánægður með framkomu stuðningsmanna félagsins á samskiptamiðlinum en þeir láta Depay óspart heyra það. Memphis spilaði með U21 árs liði félagsins í 7:0 sigri á Norwich en hann lagði þar upp þrjú mörk.

„Memphis átti góðan leik og það gæti hjálpað sjálfstraustinu hjá honum. Ég hef séð viðbrögðin hjá stuðningsmönnunum, það er að segja ekta stuðningsmönnunum sem fylgjast líka með U21 árs liðinu,“ sagði Van Gaal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert