Zlatan sagður hafa samið við United

Zlatan Ibrahimovic þakkar fyrir sig í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn.
Zlatan Ibrahimovic þakkar fyrir sig í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn. AFP

Hollenska blaðið De Telegraaf fullyrðir að sænski landsliðsmaðurinn Zlatan Ibrahimovic hafi samþykkt að ganga til liðs við Manchester United. 

Samkvæmt frétt blaðsins fer Ibrahimovic til United á frjálsri sölu enda samningur hans við PSG að renna út og vangaveltur hafa verið uppi um hvar Svíinn muni spila á næstu leiktíð.

Enska félagið á að hafa boðið Ibrahimovic að vera aðstoðarþjálfari hjá félaginu þegar leikmannaferli hans lýkur en Ibrahimovic verður 35 ára á árinu. 

Samkvæmt hollenskum fjölmiðlamönnum sem tjáð sig hafa um fréttina þá geta menn sér þess til að heimildamaður De Telegraaf sem umboðsmaður Zlatans Ibrahimovic. Hann er hollenskur og heitir Mino Raiola. Hefur blaðið verið í ágætu sambandi við umboðsmanninn í gegnum árin. 

Zlatan Ibrahimovic fékk heiðursskiptingu á lokamínútunum bikarúrslitaleiksins í Frakklandi á laugardaginn þegar lið hans PSG varð bikarmeistari eftir 4:2 sigur á Marseille. Skoraði hann tvívegis í leiknum og átti auk þess stoðsendingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert