Sam staðfestur sem þjálfari Englands

Sam Allardyce hefur verið ráðinn þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu …
Sam Allardyce hefur verið ráðinn þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu karla. AFP

Sam Allardyce hefur verið ráðinn þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu, en þessar fregnir hafa legið í loftinu undanfarna daga og hafa nú verið staðfestar. Sam Allardyce tekur við starfinu af Roy Hodgson sem sagði starfi sínu lausu strax í kjölfar taps enska liðsins gegn Íslandi í 16 liða úrslitum Evrópumótsins í Frakklandi í sumar. 

Samningur Sam Allardyce við enska knattspyrnusambandið er til tveggja ára, en hann hefur stýrt Limerick, Blackpool, Notts County, Bolton, Newcastle, Blackburn, West Ham og Sunderland á 25 ára löngum knattspyrnustjóraferli sínum.

„Ég er afskaplega stoltur af því að vera treyst fyrir því að taka við enska landsliðinu og það er ekkert leyndarmál að þetta er það starf sem ég hef ávallt þráð að sinna. Fyrir mér er þetta besta starfið í enska boltanum og ég mun allt sem í mínu valdi stendur til þess að standa mig vel í starfi,“ sagði Sam Allardyce í samtali við fjölmiðla eftir að tilkynnt var um ráðningu hans. 

„Það er einlæg von mín að ég muni ná góðum árangri sem þjálfari enska landsliðiðsins. Fyrst og fremst mun ég einbeita mér að því veita stuðningsmönnum okkar verðskuldaðar gleðistundir. Markmiðið er að stuðningsmenn okkar geti verið stoltir af frammistöðu okkar,“ sagði Sam Allardyce enn fremur.   

„Ég mun aðallega beina sjónum mínum að A-landsliðinu og að aðalliðið nái góðum úrslitum, en ég mun einnig hafa reyna að hafa jákvæð áhrif á það góða staf sem hefur verið unnið við þróun yngri liðanna. Ég veit að við eigum hæfileikaríka og dugmikla leikmenn og nú er kominn tími á að við gerum okkur almennilega gildandi,“ sagði Sam Allardyce um framhaldið hjá enska landsliðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert