Tómlegt án United í Meistaradeildinni

José Mourinho telur að það verði tómlegt í Meistaradeildinni í …
José Mourinho telur að það verði tómlegt í Meistaradeildinni í vetur. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, telur að titilbaráttan á Englandi í vetur verði jöfn og spennandi. Hann bætti því við að það yrði tómlegt í Meistaradeild Evrópu í vetur nú þegar United væri ekki á meðal þátttakenda.

Mourinho telur að það gæti komið fyrrum lærisveinum hans í Chelsea til góða að taka ekki þátt í neinni Evrópukeppni en United leikur í Evrópudeildinni. „Það að geta æft frá mánudegi til laugardags, án leikja og meiðsla, er mjög gott fyrir hvern þann sem ætlar að berjast um titilinn,“ sagði Mourinho í viðtali við BT Sport.

United leikur í Evrópudeildinni á komandi tímabili vegna þess að liðið hafnaði í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Mourinho telur að Meistaradeildin muni sakna United í vetur:

„Það er tómlegt í Meistaradeildinni þegar Manchester United er ekki á meðal þátttakenda. Meistaradeildin er ekki söm ef nokkur lið vantar, til að mynda Real Madrid og Barcelona. Þetta er í eðli Manchester United og við verðum að komast þangað aftur,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert