Gat ekki brosað í langan tíma

Livermore með boltann í leik með Hull.
Livermore með boltann í leik með Hull. AFP

Knattspyrnumaðurinn Jake Livermore segir að það hafi bjargað knattspyrnuferlinum þegar hann féll á lyfjaprófi fyrir notkun kókaíns.

Livermore, sem er leikmaður Hull í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, féll á lyfjaprófi í maí í fyrra, tæpu ári eftir að nýfætt barn hans lést. Enska knattspyrnusambandið ákvað að Livermore færi ekki í keppnisbann í ljósi aðstæðna.

„Ég var ungur maður sem vissi ekki hvernig átti að bregðast við,“ sagði Livermore í viðtali við Football Focus.

Hann segir að það hafi nánast verið léttir þegar hann féll á lyfjaprófinu. „Ég setti hendur fyrir aftan höfuðið og slakaði á inni á skrifstofu knattspyrnustjórans. Hann leit á mig og sagði mér að þetta gæti þýtt allt að fjögurra ára keppnisbann. Mér var alveg sama,“ sagði Livermore.

„Jake hélt öll­um sín­um vanda­mál­um út af fyr­ir sig. All­ir fót­bolta­menn halda að þeir séu ósigrandi en þeir eiga í sín­um vanda­mál­um eins og aðrir. Það fer ekki á milli mála að and­lát barns­ins hafði sitt að segja í þessu,“ sagði Steve Bruce, þáverandi knatt­spyrn­u­stjóri Hull, þegar Livermore féll á lyfjaprófinu.

Miðjumaðurinn sneri aftur á knattspyrnuvöllinn í september, fjórum mánuðum eftir að hann féll á lyfjaprófinu. „Það er eitt af bestu augnablikunum á ferlinum, þegar ég gekk aftur inn á völlinn. Stuðningsmenn Hull hafa verið frábærir og ekki bara á vellinum. Þeir hitta mann utan vallar og hvetja mann til dáða,“ sagði Livermore.

„Ég er þakklátur og nýt fótboltans. Ég gat ekki brosað í langan tíma en núna er brosið komið aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert