Memphis hlustaði ekki á Elia

Memphis Depay í leik með hollenska landsliðinu.
Memphis Depay í leik með hollenska landsliðinu. AFP

Hollenski vængmaðurinn Eljero Elia gaf Memphis Depay, sem leikur nú með Manchester United, ráð áður en hann ákvað að semja við enska félagið. Memphis ákvað þó að hlusta ekki á Elia.

Memphis samdi við United á síðasta ári eftir að hafa verið magnaður með hollenska meistaraliðinu PSV Eindhoven.

Hann hefur þó ekki enn fundið sig hjá félaginu og eru allar líkur á því að hann fari í janúar en hann hefur verið orðaður við Everton.

Elia, sem leikur nú með Feyenoord, gaf Memphis ráð áður en hann ákvað að fara til United en hann sagði honum að velja minna félag sem næsta stökkpall. Elia þekkir það sjálfur að taka of stór skref en hann samdi við Juventus árið 2011 og stóðst aldrei þær væntingar sem gerðar voru til hans.

„Ég sagði Memphis að velja sér minna félag, eins og Tottenham. Manchester United er stórt félag og pressan þar er mikil. Hann hefði þurft að byrja frábærlega með þeim, svo mikil er pressan,“ sagði Elia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert