Staðfestir áhuga Arsenal

Ralph Hasenhüttl hefur ástæðu til að brosa þessa dagana.
Ralph Hasenhüttl hefur ástæðu til að brosa þessa dagana. AFP

Austurríkismaðurinn Ralph Hasenhüttl, sem þjálfari RB Leipzig, toppliðið óvænta í þýsku knattspyrnunni, staðfesti í dag að Arsenal hefði sýnt því áhuga að hann yrði eftirmaður Arsene Wengers sem knattspyrnustjóri hjá Lundúnafélaginu.

Fyrr í vikunni var Hasenhüttl orðaður við starfið í götublaðinu The Sun og hann var spurður út í þetta á fréttamannfundi í dag.

„Þetta var vel unnin frétt og það var mikið til í henni. Ég hef heyrt margt verra en að taka  við af þeim stjóra sem lengst hefur starfað á Englandi. Þetta skemmir ekkert fyrir mér, held ég. En við þurfum ekki að hugleiða þetta of mikið, hérna datt ég í lukkupottinn," sagði Hassenhüttl ennfremur.

Hann tók við liði RB Leipzig í sumar, eftir að það vann sér sæti í efstu deild í fyrsta skipti, og þar trónir það nú taplaust á toppnum, þremur stigum á undan Bayern München, og býr sig undir heimaleik gegn Schalke á morgun.

Hasenhüttl er 49 ára  gamall og lék í Austurríki, Þýskalandi og Belgíu, m.a. með Köln og varaliði Bayern München, og hefur þjálfað í Þýskalandi frá 2007. Hann var síðast með lið Ingolstadt og fór með það upp í efstu deild í fyrsta skipti og hélt því þar á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert