Jón Dagur framlengir við Fulham

Jón Dagur Þorsteinsson í búningi Fulham.
Jón Dagur Þorsteinsson í búningi Fulham. Ljósmynd/Fulham

Knattspyrnumaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson hefur skrifað undir nýjan samning við enska B-deildarfélagið Fulham og er nú samningsbundinn því til sumarsins 2019.

Jón Dagur hefur spilað 11 leiki með varaliði Fulham í vetur og skorað tvö mörk, auk þess sem hann hefur verið að spila fyrir U18 ára liðið. Hann skoraði þá meðal annars beint úr aukaspyrnu gegn unglingaliði Aston villa – mark sem var valið það besta í októbermánuði.

„Það er frábært að skrifa undir nýjan samning og ég ætla að halda áfram að leggja hart að mér,“ sagði Jón Dagur við heimasíðu Fulham, en hann kom fyrst til félagsins fyrir um einu og hálfu ári.

„Þetta er mitt annað tímabil og mér finnst ég vera kominn vel inn í hlutina. Fulham er góður staður til þess að þróast sem leikmaður. Mér finnst ég hafa staðið mig vel í vetur, skorað nokkuð mörk og það er gaman að sjá unga leikmenn fá tækifæri."

Jón Dagur er uppalinn í HK og varð meðal annars yngsti meistaraflokksmaður félagsins frá upphafi, aðeins 15 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert