Hörður og félagar settu vafasamt met

Hörður Björgvin Magnússon fagnar marki með Bristol.
Hörður Björgvin Magnússon fagnar marki með Bristol. Ljósmynd/Bristol

Hörður Björgvin Magnússon og félagar í Bristol City eru í tómu basli í ensku B-deildinni í knattspyrnu, en liðið setti vafasamt félagsmet í dag.

Bristol tapaði sínum áttunda leik í röð þegar liðið þurfti að horfa á eftir þremur stigum í 1:0 ósigri fyrir Nottingham Forrest. Hörður Björgvin stóð vaktina allan leikinn í vörninni, en Bristol er nú aðeins tveimur stigum frá fallsæti. Hefur 27 stig í 27. sæti.

Jón Daði Böðvarsson fór af velli á 66. mínútu hjá Wolves sem tapaði úti fyrir Norwich, 3:1. Wolves er í 18. sæti með 32 stig.

Aron Einar Gunnarsson var eini Íslendingurinn í sigurliði í dag, en mark á lokamínútunni tryggði Cardiff dramatískan sigur á Burton 1:0. Cardiff er í 16. sæti með 33 stig og spilaði Aron allan leikinn.

Þá var Ragnar Sigurðsson ónotaður varamaður hjá Fulham í 1:1 jafntefli við QPR. Fulham er í 8. sæti með 40 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert