Gylfi vill berjast áfram með Swansea

Gylfi Þór Sigurðsson skorar sigurmarkið á Anfield um helgina.
Gylfi Þór Sigurðsson skorar sigurmarkið á Anfield um helgina. AFP

Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson segist ekki hafa áhuga á því að yfirgefa Swansea heldur vill hann halda áfram að berjast og hjálpa liðinu að halda sæti sínu í deildinni.

Gylfi hefur verið orðaður burt frá félaginu, en sjálfur segist hann ekkert fylgjast með slíkum orðrómum í enskum fjölmiðlum.

„Ég er hér til þess að vinna mína vinnu og hjálpa liðinu að vinna leiki. Ég hugsa bara um það og eyði ekki orku í að skoða það sem er skrifað í blöðunum. Á meðan ég er hér þá mun ég gera mitt besta fyrir liðið,“ sagði Gylfi við Wales Online.

Hann áréttaði að hann ætlaði ekki að fara frá félaginu í janúar, en mörg félög hafa borið víurnar í hann.

„Ég reikna með því að vera hér áfram í lok mánaðarins, það þyrfti eitthvað ótrúlegt að gerast ef ég myndi fara. Ég er mjög ánægður hjá Swansea og vil ekki falla, svo ég mun gera mitt besta til þess að halda liðinu uppi,“ sagði Gylfi.

Þá hefur framherjinn Fernando Llorente einnig tjáð sig og ætlar ekki að yfirgefa félagið, en hann hefur verið orðaður við Chelsea nú í janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert