Uppsögn Ranieri kom Klopp ekki á óvart: Trump var kosinn

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Liverpool mætir Leicester City á mánudag í ensku úrvalsdeildinni en það verður fyrsti leikurinn sem Leicester spilar ekki undir stjórn Ítalans Claudio Ranieri sem var sagt upp í störfum í gær.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var spurður álits á brottrekstrinum og það stóð ekki á svörum hjá honum að vanda.

„Kemur mér það á óvart að svona hlutir geti gerst? Nei. Þær eru skrýtnar ákvarðanirnar (tímabilið) 16-17: Brexit, Trump og Ranieri,“ sagði Klopp.

„Ég veit ekki nógu mikið um þetta. Þið þurfið að spyrja Leicester City hvers vegna þeir gerðu þetta.  Við búumst við öflugu Leicester City á mánudag,“ sagði Klopp.

Liverpool vann afar mikilvægan sigur á Tottenham og segir Klopp að hann vilji sjá margt af því sama og átti sér stað í þeim 2:0 sigri.

„Við viljum vera sterkir, líflegir og vel skipulagðir,“ sagði Klopp sem var enn fremur afar ánægður með Wijnaldum í þeim leik. „Kannski var þetta hans besti leikur,“ sagði Klopp.

Spurður um það hvernig það sé að mæta Englandsmeisturum Leicester nú þegar nýbúið er að reka Ranieri, sagði Klopp:

„Leikmenn Leicester vilja sanna fyrir fólki einhverja hluti og það er okkar starf að leyfa þeim það ekki. Ef við spilum okkar besta leik er erfitt að mæta okkur. Við höfum undanfarna 15 daga verið að vinna að því að spila okkar besta fótbolta. Nú þurfum við að sýna það,“ sagði Klopp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert