Kallaði Barkley górillu - Sendur í leyfi

Ross Barkley er ættaður frá Nígeríu.
Ross Barkley er ættaður frá Nígeríu. AFP

Kelvin MacKenzie pistlahöfundur enska götublaðsins The Sun hefur verið sendur í leyfi fyrir skrif sín um Ross Barkley, leikmann Everton og  Liverpool-búa. MacKenzie líkti Barkley m.a við górillu í dýragarði, en Barkley á ættir að rekja til Nígeríu og hefur MacKenzie verið sakaður um rasisma. 

Mackenzie skrifaði að menn í Liverpool-borg sem væru á svipuðum launum og Barkley væru dópsalar. Lögreglan rannsakar nú skrifin og gæti MacKenzie verið í frekari vandræðum þar sem lögreglan í Liverpool gæti kært hann fyrir hatursummæli.

The Sun hefur beðist afsökunar á skrifunum og kváðust ritstjórar blaðsins ekki hafa vitað að Barkley væri ættaður frá Nígeríu. MacKenzie sér hins vegar ekki eftir neinu og segir hann að skrifin hafi ekki innihaldið neinn rasisma. 

MacKenzie er fyrir vikið enn óvinsælli en áður í Liverpool, en hann var ritstjóri The Sun á þeim tíma sem blaðið kenndi stuðningsmönnum Liverpool um Hillsborough-slysið þar sem 96 manns létust. Seinna var sannað að stuðningsmenn Liverpool voru saklausir í málinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert