Wilshere enn og aftur alvarlega meiddur

Jack Wilshere hefur verið skelfilega óheppinn.
Jack Wilshere hefur verið skelfilega óheppinn. AFP

Enski miðjumaðurinn Jack Wilshere, sem er í láni hjá Bournemouth frá Arsenal, mun ekkert spila meira á tímabilinu eftir að bein brotnaði í fæti hans í 4:0-tapi fyrir Tottenham um helgina.

Meiðslin eru svipuð þeim og héldu honum frá knattspyrnuvellinum í níu mánuði á síðasta tímabili og gerði það að verkum að hann kom aðeins við sögu í tveimur leikjum. Þá þurfti hann að fara í aðgerð og ef það sama verður uppi á teningnum nú er ljóst að hann verður ekki tilbúinn í byrjun næsta tímabils.

Hinn 25 ára gamli Wilshere hefur verið afar óheppinn með meiðsli. Sem áður segir spilaði hann aðeins tvo leiki í fyrra og tímabilið þar á undan var hann frá í fimm mánuði. Þá missti hann af öllu tímabilinu 2011/2012 vegna meiðsla.

Forráðamenn Arsenal voru fyrir skemmstu sagðir opnir fyrir því að framlengja samninginn við Wilshere, en núgildandi samningur rennur út eftir rúmt ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert