Gabbiadini bjargaði stigi fyrir Southampton

Manolo Gabbiadini fagnar öðru marka sinna í dag.
Manolo Gabbiadini fagnar öðru marka sinna í dag. AFP

Ítalinn Manolo Gabbiadini skoraði tvisvar er Southampton marði jafntefli gegn Newcastle á suðurströnd Englands í dag en lokatölur urðu 2:2 í þessum síðari leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Liðsmenn Rafa Benítez hjá Newcastle virkuðu sprækari en Southampton í leiknum og komust tvívegis yfir. Fyrst var það Isaac Hayden sem skoraði eftir 20. mínútna leik og staðan í hálfleik var 1:0.

Gabbiadini jafnaði á 49. mínútu leiksins eftir afar slakan varnarleik Newcastle þar sem Ítalinn lék lausum hala, rak boltan út í teiginn og náði svo góðu skoti á nærstöng, 1:1. Ayoze Perez kom Newcastle yfir á ný aðeins tveimur mínútum síðar er hann fylgdi á eftir eigin skoti og þrumaði boltanum á nærstöng Fraser Forster í markinu sem átti að gera betur.

Á 75. mínútu braut Florian Lejeune afskaplega klaufalega á Shane Long innan teigs og Kevin Friend dómari leiksins dæmdi réttilega vítaspyrnu. Á punktinn fór Gabbiadini og skoraði af miklu öryggi.

Newcastle hefur 11 stig í 9. sæti eftir leikinn í dag og Southampton 9 stig í 10. sæti.

Isaac Hayden fagnar fyrra marki Newcastle í dag.
Isaac Hayden fagnar fyrra marki Newcastle í dag. AFP
Southampton 2:2 Newcastle opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert