Velgengnin minnir á íslenska landsliðið

Jóhann Berg Guðmundssonfagnar marki með Burnley.
Jóhann Berg Guðmundssonfagnar marki með Burnley. Ljósmynd/burnleyfootballclub.com

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley hafa gert sitt til að afsanna tilgátuna um að „ár númer tvö“ í efstu deild sé erfiðara og „hættulegra“ en nýliðaárið. Þeir eru með 22 stig eftir 12 fyrstu umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, jafnir Liverpool og Arsenal að stigum, og hafa aðeins tapað einum af síðustu tíu leikjum sínum, á útivelli gegn toppliði Manchester City.

Burnley endaði í 16. sæti á síðustu leiktíð, sex stigum frá fallsæti, eftir að hafa komist upp úr ensku B-deildinni ári áður. Félagið sá svo í sumar á eftir tveimur af sínum dáðustu leikmönnum, Michael Keane til Everton og Andre Gray til Watford, og hafði mjög hægt um sig í leikmannakaupum. Engu að síður hefur gengið verið afar gott, og Jóhann á sjálfur ríkan þátt í því:

„Auðvitað vita allir að við erum ekki með dýrasta liðið í ensku úrvalsdeildinni en rétt eins og með íslenska landsliðið þá getur sterk liðsheild, með góða einstaklinga innanborðs, gert mjög góða hluti,“ segir Jóhann, en Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær.

„Það tala auðvitað margir um það að „annað tímabilið“ í úrvalsdeildinni sé mun erfiðara en það fyrsta. Þannig hefur það líka oft verið. En hjá okkur finnst mér liðið bara hafa orðið betra, þar sem menn hafa öðlast meiri reynslu og þekkja deildina betur. En það er nóg eftir af þessu tímabili. Við höfum þó komið okkur í frábæra stöðu og höldum vonandi svona áfram,“ segir Jóhann.

Nánar er rætt við Jóhann Berg og fjallað um frammistöðu Burnley í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.