Gylfi: Þetta var skrítin tilfinning

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði glæsimark í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði glæsimark í kvöld. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson segir að það hafi verið skrítin tilfinning að skora gegn sínum gömlu félögum í Swansea, en hann skoraði glæsilegt mark í 3:1-sigri Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Gylfi lét þá vaða utan teigs og skrúfaði boltann í fjærhornið framhjá Lukasz Fabianski, fyrrverandi samherja sínum í markinu.

„Ég veit að Fabianski er góður markvörður, en ég náði að koma boltanum framhjá honum. Þetta var skrítin tilfinning. Ég hef spilað með flestum þessum strákum í þrjú ár, en þetta var afar mikilvægur sigur fyrir okkur,“ sagði Gylfi eftir leik.

Sam Allardyce tók við Everton eftir slakt gengi liðsins framar af. Hverju hefur hann breytt?

„Við verjumst betur sem lið. Við vissum að við myndum fá sjálfstraustið á ný með því að ná í sigra. Vonandi getum við haldið áfram að byggja á þessu góða gengi,“ sagði Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert