Liverpool skortir leiðtoga

Jordan Henderson og James Milner eru tveir af þremur leiðtogum …
Jordan Henderson og James Milner eru tveir af þremur leiðtogum í hópi Liverpool, að mati Austins. AFP

Eitt af þeim vandamálum sem Englandsmeistarar Liverpool í fótbolta glíma við þessa dagana er skortur á leiðtogum í leikmannahópnum.

Þetta er mat eins af andstæðingum þeirra í úrvalsdeildinni, Charlie Austin, framherja West Bromwich Albion, sem nú leikur reyndar sem lánsmaður með QPR í B-deildinni.

„Ef maður skoðar fyrri meistaralið þá voru þau skipuð fjölmörgum leiðtogum. Manchester United var alltaf með fullt af slíkum karakterum í sínum hópi. Ekki einn eða tvo heldur fimm, sex eða sjö. Sama er að segja um Manchester City og lið Chelsea þegar það var upp á sitt besta undir stjórn Mourinho," sagði Austin í viðtali við Talksport.

„Núna sést það enn betur en áður hversu mjög það háir Liverpool að það  séu ekki margir leiðtogar í hópnum. Ég get talið upp Henderson, Milner og van Dijk, en fleiri finn ég ekki," sagði Charlie Austin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert