Lykilmaður Arsenal dró sig úr landsliðshópnum

Gabriel.
Gabriel. AFP/Justin Tallis

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Gabriel dró sig úr leikmannahópi brasilíska landsliðsins í gær vegna meiðsla.

Dorial Júnior, landsliðsþjálfari Brasilíu, greindi frá þessu en Gabriel, sem er 26 ára gamall, hefur verið í lykilhlutverki í varnarleik Arsenal undanfarin ár.

Landsliðsþjálfarinn greindi hins vegar ekki frá því hvað væri nákvæmlega að hrjá leikmanninn en Brasilía mætir Englandi og Spáni í tveimur vináttulandsleikjum í landsleikjahléinu.

Miðvörðurinn hefur leikið frábærlega með Arsenal á tímabilinu og skorað fjögur mörk í 26 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Arsenal trónir sem stendur á toppi deildarinnar með 64 stig, jafnmörg stig og Liverpool, en með mun betri markatölu en Liverpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert