Eftirsóttur af stærstu liðum heims

Jarrad Branthwaite.
Jarrad Branthwaite. AFP/Justin Tallis

Enski knattspyrnumaðurinn Jarrad Branthwaite er gríðarlega eftirsóttur þessa dagana en hann er samningsbundinn Everton í ensku úrvalsdeildinni.

Branthwaite, sem er einungis 21 árs gamall, er á óskalista Manchester City, Manchester United, Real Madrid og Tottenham en það er Sportsmail sem greinir frá þessu.

Miðvörðurinn er uppalinn hjá Carlisle en gekk til liðs við Everton sumarið 2020. Hann er samningsbundinn Everton til sumarsins 2027 en hann hefur leikið 25 leiki liðsins í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað tvö mörk.

Everton er í harðri fallbaráttu þessa dagana en liðið er með 25 stig í 16. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá fallsæti.

Fari svo að Everton falli gæti félagið neyðst til þess að selja Branthwaite en hann er verðmetinn á 40 milljónir punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert