Merkilegt ár í streymisgeiranum að baki

Ljósmynd/Unsplash/Ella Don

Það var mikið um að vera hjá streymendum á síðasta ári og virðist vera sem streymisgeirinn ætli að halda áfram að stækka.

Þá slógu þrír vinsælustu streymendur síðasta árs allir einhvers konar met og halda áfram að móta þennan tiltölulega nýja starfsvettvang.

Efstur þriðja árið í röð

Streymandinn Felix Lengyel „xQc“ hefur komið ár sinni vel fyrir fyrir borð, eða músinni réttar sagt, þar sem hann var vinsælastur streymenda á Twitch á síðasta ári, enn eina ferðina.

Þetta er þriðja árið í röð sem hann fær mesta áhorfið og er um 60 milljón klukkustunda munur á heildaráhorfi milli hans og þeim næstvinsælasta, Alexandre Borba „Gaules“.

Yfir tvö hundruð milljón klukkustundir

Á árinu sem var að líða varði Felix 3.200 klukkustundum í beinni útsendingu og sló einnig eigið áhorfsmet þegar kemur að fjölda virkra áhorfenda á sama tíma.

Heildaráhorfið yfir árið nam einnig um 221,4 milljón klukkustundum en sú tala er fengin út  með því að leggja saman allan þann tíma sem hver áhorfandi fyrir sig fylgdist með streyminu.

Eins og öll íslenska þjóðin væri að fylgjast með

Það var síðasta vor sem Felix sló eigið áhorfsmet og þá í sambandi við fjölda virkra áhorfenda samtímis. Í apríl streymdi hann frá því þegar hann spilaði í lokaðri beta-prufu fyrir tölvuleikinn Overwatch 2 en um 330.000 áhorfendur fylgdust með á sama tíma þegar mest lét.

Það er næstum því eins og öll íslenska þjóðin hafi fylgst með streyminu á sama tíma.

Nánast allt árið í beinni útsendingu

Sem fyrr segir var Alexandre Borba „Gaules“ næstvinsælastur á árinu en þetta er líka þriðja árið í röð sem hann heldur sínu sæti á vinsældalistanum. Hins vegar náði hann efsta sætinu á öðrum lista, yfir þá streymendur sem voru lengst í beinni útsendingu.

Á árinu nam heildaráhorfið um 160 milljón klukkustundum og varði hann næstum því 8.500 klukkustundum í beinni útsendingu, en það eru 8.760 klukkustundir á ári. Það þýðir að hann var nánast allan sólarhringinn í beinni útsendingu, allt árið.

Nánast tvöfalt hærra met

Alexandre hefur skapað sér nafn fyrir það að lýsa ýmsum Counter-Strike: Global Offensive-mótum og fengið mikið áhorf í kjölfarið á því.

Þegar útsláttarviðureign Imperial og Cloud9 fór fram á PGL Major Antwerp fór fram voru fleiri en 707,6 þúsund áhorfendur sem fylgdust með samtímis. Það eru næstum því tvöfalt fleiri virkir áhorfendur en hafa fylgst með Felix.

Þúsundum klukkustundum skemur

Ibai Llanos „ibai“ átti einnig nokkuð gott ár þar sem hann komst upp úr fjórða sæti og gerðist þriðji vinsælasti streymandinn að þessu sinni. 

Á árinu nam heildaráhorfið um 107 milljón klukkustunda þrátt fyrir að hafa verið þúsundum klukkustundum skemur en Felix og Alexandre í beinni útsendingu. Þá varði Ibai rétt undir 1.300 klukkustundum í beinni útsendingu á síðasta ári

Hnefaleikamótið LA VELADA DEL AÑO II sem fór fram í sumar spilar reyndar býsna stórt hlutverk í velgengni og vinsældum hans sem streymandi.

Hnefaleikamót til frægðar

Ibai streymdi frá mótinu með býsna góðum árangri en hann sló áhorfsmet á streymisveitunni sjálfri.

Það voru fleiri en 3,35 milljón virkir áhorfendur að horfa á streymið þegar mest lét en þetta er mesti fjöldi áhorfenda sem mælst hefur á Twitch fram að þessu.

Síðar var Ibai tilnefndur sem streymandi ársins hjá Esports Awards en í framhaldi af því hófu tíu milljón manns til viðbótar að fylgjast með rásinni hans.

Hægt er að skoða lengri lista yfir vinsælustu streymendurnar með því að fylgja þessum hlekk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert