Alonso „maður mótsins“ segir Dennis

Alonso kominn fram úr sínum gamla liðsfélaga, Fisichella, í dag.
Alonso kominn fram úr sínum gamla liðsfélaga, Fisichella, í dag. reuters

McLarenstjórinn Ron Dennis hrósaði framgöngu Fernando Alonso í franska kappakstrinum og því hugarfari hans að gefast aldrei upp. Sagði hann Alonso vera „mann mótsins.“

Alonso átti á brattann að sækja eftir að gírkassabilun kom í veg fyrir að hann æki neitt í lokalotu tímatökunnar í gær. Fyrir vikið hóf hann keppni í tíunda sæti.

Mestan hluta kappakstursins háði hann harða hildi við keppinauta, velgdi þeim hraustlega undir uggum en átti erfitt með að finna leið fram úr þeim á stuttri og bugðóttri brautinni. Nick Heidfeld sótti í reynslubrunn sinn er hann hélt Alonso fyrir aftan sig hvern hringinn af öðrum allt þar til að heimsmeistarinn sýndi sínar bestu hliðar og smeygði sér inn fyrir hann og fram úr á 230 km/klst hraða á leið inn í Nürburgring hlykkbeygjuna.

Keppnisáætlun Alonso og breytingar á henni í miðjum klíðum afmáðu ávinninginn af sókninni miklu og hann hafnaði að lokum í sjöunda sæti, á eftir bæði Heidfeld og Giancarlo Fisichella hjá Renault sem hann hafði einnig unnið sig fram úr eftir harða glímu við hinn gamla liðsfélaga sinn.

„Fyrir mér var Fernando maður kappakstursins,“ sagði Dennis. „Það lá fyrir að keppnin yrði erfið við það að ræsa í tíunda sæti. Takmarkið var að vinna stig og það gerði hann.“

Alonso var bundinn í byrjun af þeirri þriggja stoppa keppnisáætlun sem McLaren lagði upp með fyrir tímatökurnar. Við að ræsa úr tíunda sæti komst hann aldrei á auðan sjó og gat því ekki notfært sér til fullnustu hraða bílsins. Áætluninni var síðan breytt og stoppum fækkað um eitt en það skilaði ekki tilætluðum árangri.

„Ég gerði eins vel og ég gat í dag. Keppnin við Nick Heidfeld var skemmtileg, en hrikalega erfið. Ég tók einnig skemmtilega fram úr Giancarlo,“ sagði Alonso eftir keppnina.

Gengur út frá því að óheppni elti Hamilton síðar

Hann sagðist hafa teflst á það tæpasta til að takmarka sem mest tjónið í heimsmeistarakeppni ökuþóra af því að hafa ræst svo aftarlega. „Ég er að keppa um heimsmeistaratitil og varð því að gera allt sem ég gat í dag og óttaðist ekkert að taka áhættu. Uppskeran er svekkjandi en málið er að gera betur eftir viku [í breska kappakstrinum], þar sem við ættum að vera öflugir,“ sagði Alonso.

Er hann var spurður hvort hann væri enn bjartsýnn á að geta unnið þriðja ökuþóratitilinn í röð svaraði Alonso hiklaust: „Já, engin spurning. Hamilton, sem er í forystu, varð þriðji. Hann hefur klárað öll mótin átta á verðlaunapalli, en þegar hann verður fyrir gírkassabilun eða geldur öryggisbílsins, þá mun ég draga hvað mest á hann."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert