Hamilton vann - Alonso fór útaf

Lewis Hamilton fagnar sigri í morgun.
Lewis Hamilton fagnar sigri í morgun. Reuters

Enski ökuþórinn Lewis Hamilton, sem ekur fyrir McLaren-Mercedes í Formúlu 1, vann Japanskappaksturinn í morgun. Með sigrinum náði Hamilton 12 stiga forskoti á liðsfélaga sinn, Spánverjann Fernando Alonso en Alonso missti stjórn á bíl sínum í 42. hring og lenti á öryggisvegg. Finnarnir Heikki Kovalainen, sem ekur fyrir Renault, og Kimi Räikkönen, sem ekur fyrir Ferrari, urðu í 2. og 3. sæti.

Pallsætið er hið fyrsta sem Kovalainen vinnur á jómfrúarári sínu í formúlu-1 og hið fyrsta fyrir Renault í ár. Honum tókst að verjast áköfum tilraunum Räikkönen til að komast fram úr á síðustu hringjunum.

Tvær keppnir eru eftir á tímabilinu og getur Hamilton tryggt sér heimsmeistaratitilinn í Kína um næstu helgi. Alonso getur enn varið heimsmeistaratitil sinn en líkurnar eru afar litlar.

Aðstæður á Fuji kappakstursbrautinni í Oyama í Japan voru afar erfiðar í nótt vegna mikillar rigningar. Ræst var fyrir aftan öryggisbíl og margir ökuþórar misstu stjórn á bílum sínum eða lentu í árekstrum, þar á meðal Alonso. Eftir að bíll hans lenti á öryggisvegg fór hann út á brautina og þar var Alonso hjálpað út. Hann stóð bakvið grindverk og fylgdist með keppninni nokkra hringi áður en hann hélt í hús.

Hamilton ræsti fremstur en fór niður í 4. sæti eftir fyrsta þjónustuhlé sitt. Hann náði forustunni á ný eftir 41 hring og hélt henni til loka. Þetta er fjórði sigur Hamiltons á keppnistímabilinu en hann sigraði einnig í Kanada, Bandaríkjunum og Ungverjalandi.

Skotinn David Coulthard, sem ekur fyrir Red Bull, varð fjórði í keppninni í dag. Ítalinn Giancarlo Fisichella á Renault fimmti, Brasilíumaðurinn Felipe Massa á Ferrari varð sjötti, Pólverjinn Robert Kubica á BMW Sauber sjöundi og Ítalinn Vitantonio Liuzzi, sem ekur fyrir Toro Rosso varð áttundi, en það er besti árangur liðsins í ár og fyrsta stig þess á vertíðinni.

Nýliðinn Sebastian Vettel hjá Toro Rosso stefndi lengi á verðlaunapall en gætti sín ekki sem skyldi og ók aftan á Mark Webber svo að báðir féllu úr leik, en þeir voru þá í öðru og þriðja sæti og innan við þriðjungur eftir.

Áður hafði Vettel ekið utan í Alonso og skemmt bíl hans. Báðir snarsnerust og staðnæmdust á öryggissvæði en gátu um síðir haldið áfram.

Hamilton er nú með 107 stig en Alonso er næstur með 95 stig. Räikkönen er þriðji með 90 stig og Massa er með 80 stig.

Úrslit kappakstursins í Fuji

Staðan í stigakeppni ökuþóra og bílsmiða

Fréttamenn hópast að Fernando Alonso eftir að hann neyddist til …
Fréttamenn hópast að Fernando Alonso eftir að hann neyddist til að hætta keppni. Reuters
Lewis Hamilton fremstur í brautinni.
Lewis Hamilton fremstur í brautinni. Reuters
Bíll Alonso fjarlægður af brautinni.
Bíll Alonso fjarlægður af brautinni. Reuters
Alexander Wurz, ökumaður Williams, var einn þeirra sem lenti í …
Alexander Wurz, ökumaður Williams, var einn þeirra sem lenti í árekstri. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert