McLaren fær á baukinn frá Bridgestone

Brautarverðir fjarlæga bíl Hamiltons úr malargryfjunni við bílskúrareinina í Sjanghæ.
Brautarverðir fjarlæga bíl Hamiltons úr malargryfjunni við bílskúrareinina í Sjanghæ. reuters

Heimsmeistaratitill ökuþóra rann Lewis Hamilton úr greipum í kappakstrinum í Sjanghæ í fyrradag þar sem stjórnendur McLaren létu aðvaranir dekkjafræðinga sem vind um eyru þjóta í fimm hringi.

Talið hefur verið að McLaren hafi reynt að hafa heppnina með sér aðeins einum hring of lengi en heimildir frá Bridgestone benda til að klúður stjórnenda liðsins sé í raun mun alvarlegra.

Klúðrið gæti átt eftir að kosta Hamilton titilinn og þann sögulega möguleika á að verða fyrsti nýliðinn til að hampa honum og verða yngsti heimsmeistari sögunnar.

Yfirmenn Bridgestone-fyrirtækisins munu æfir í garð McLaren yfir því að ekki skyldi hlustað á ráðleggingar sérfræðinga þess í svo mikilvægum kappakstri.

Vegna hinna breytilegu veðurfarsaðstæðna og þornandi brauta lögðu sérfræðingar Bridgestone til að Hamilton yrði kallaður inn til dekkjaskipta á 26. hring.

En þrátt fyrir að á skjám stjórnborðsins sæist hversu slitin dekkin voru orðin, talstöðvarupplýsingar Hamiltons um titring í bílnum og allar upplýsingarnar úr bílnum sem birtast á tölvum á stjórnborði og í bílskúr hélt liðið Hamilton úti fram í 31. hring.

Það var um seinan því hann náði ekki beygju inn að bílskúrunum á aðeins 60 km/klst hraða, heldur skautaði útaf malbikinu er hann bremsaði því ekkert var eftir á dekkjunum til að grípa festu í brautinni.

Silfurör McLaren hafnaði í malargryfju og sat þar föst með þeim afleiðingum að lokamótið í Brasilíu eftir hálfan mánuð verður þríhliða orrusta um titilinn milli Hamiltons, Fernando Alonso og Kimi Räikkönen.

Hermt er að yfirmenn Bridgestone kunni McLaren litlar þakkir og krefjist skýringa svo undrandi séu þeir á framferði stjórnenda liðsins.

Málið þykir ekki aðeins vandræðalegt fyrir McLaren heldur einnig slæm auglýsing fyrir Bridgestone sakir þess hversu illa tætt dekk Hamiltons voru orðin en það fór ekki framhjá sjónvarpsáhorfendum um heim allan.

Bíll Hamiltons hífður á brott úr malargryfjunni í Sjanghæ.
Bíll Hamiltons hífður á brott úr malargryfjunni í Sjanghæ. ap
Eftir að hann var fallinn úr leik í Sjanghæ fylgdist …
Eftir að hann var fallinn úr leik í Sjanghæ fylgdist Hamilton með liðsfélaga sínum Alonso á stjórborði McLaren. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert