Kovalainen í fyrsta sinn á ferlinum á ráspól

Fyrstu þrír í tímatökunum fagna í Silverstone (f.v.): Webber, Kovalainen …
Fyrstu þrír í tímatökunum fagna í Silverstone (f.v.): Webber, Kovalainen og Räikkönen. ap

Heikki Kovalainen hjá McLaren var í þessu að vinna ráspól breska kappakstursins í Silverstone. Er það jafnframt fyrsti ráspóll hans frá því hann hóf keppni í formúlu-1. Mark Webber á Red Bull var um skeið með besta tíma en hefur keppni í öðru sæti.

Landi Kovalainen, Kimi Räikkönen á Ferrari, varð þriðji og fær sér við hlið á rásmarkinu heimamanninn Lewis Hamilton hjá McLaren.

Svo skemmtilega vill til að Kovalainen vann einnig í Silverstone sinn fyrsta ráspól í keppni á opnum bílum. Það gerðist í formúlu Renault fyrir sjö árum. Eru það öllu veigaminni bílar en í formúlu-1.

Eftir fyrri tímatilraun ökuþóranna í lokalotunni sat Kovalainen í efsta sæti. Liðsfélagi hans Hamilton stefndi í betri tíma en ofkeyrði bílinn í Priorybeygjunni undir lokin; flaug út úr brautinni í og henti frá sér hugsanlegum ráspól.

Þennan tíma Kovalainen bættu svo Webber, Räikkönen og Hamilton í seinni tilrauninni en Finninn knái átti svar. Var engin heppni með í för, heldur fantagóður akstur því hann varð hálfri sekúndu fljótari í förum en keppinautarnir.

Felipe Massa á Ferrari, forystumaðurinn í titilkeppni ökuþóra,  gerði dýrkeypt akstursmistök og hefur keppni í aðeins níunda sæti.  Nick Heidfeld hefur keppni í fyrsta sinn á árinu framar en liðsfélagi hans Robert Kubica.

Kubica hætti í fyrri tilraun sinni vegna gruns um að loft væri að leka úr hjólbarða. Komst hann af þeim sökum ekki af stað í seinni tilrauninna. Setti því engan tíma í lokalotu tímatökunnar og hefur keppni tíundi.

Sebastian Vettel hjá Toro Rosso hefur verið öflugur á æfingum í dag og gær. Komst í lokalotuna í fyrsta sinn frá í fyrsta móti og hefur keppni áttundi, næst á undan Massa og Kubica og fimm sætum á undan liðsfélaga sínum Sebastien Bourdais.

Annað mótið í röð komust báðir Renaultarnir í lokalotuna. Hefja  Fernando Alonso og Nelson Piquet keppni í sjötta og sjöunda sæti.

David Coulthard vantaði aðeins 59 þúsundustu úr sekúndu á að komast meðal tíu fremstu í sínum síðasta formúlukappakstri í heimalandi sínu. Þriðja árið í röð komsti landi hans Jensons Button hjá Honda ekki upp úr lokalotunni á heimavelli í Silverstone. Button varð 17. og einu sæti á eftir liðsfélaga sínum Rubens Barrichello.

Niðurstaða tímatökunnar varð sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll Lota1 Lota2 Lota 3 Hri.
1. Kovalainen McLaren 1:19.957 1:19.597 1:21.049 15
2. Webber Red Bull 1:20.982 1:19.710 1:21.554 16
3. Räikkönen Ferrari 1:20.370 1:19.971 1:21.706 18
4. Hamilton McLaren 1:20.288 1:19.537 1:21.835 13
5. Heidfeld BMW 1:21.022 1:19.802 1:21.873 16
6. Alonso Renault 1:20.998 1:19.992 1:22.029 15
7. Piquet Renault 1:20.818 1:20.115 1:22.491 19
8. Vettel Toro Rosso 1:20.318 1:20.109 1:23.251 16
9. Massa Ferrari 1:20.676 1:20.086 1:23.305 16
10. Kubica BMW 1:20.444 1:19.788 12
11. Coulthard Red Bull 1:21.224 1:20.174 14
12. Glock Toyota 1:20.893 1:20.274 14
13. Bourdais Toro Rosso 1:20.584 1:20.531 16
14. Trulli Toyota 1:21.145 1:20.601 13
15. Nakajima Williams 1:21.407 1:21.112 14
16. Barrichello Honda 1:21.512 9
17. Button Honda 1:21.631 11
18. Rosberg Williams 1:21.668 6
19. Sutil Force India 1:21.786 9
20. Fisichella Force India 1:21.885 8
Kovalainen speglast í stúkuglugga í Silverstone.
Kovalainen speglast í stúkuglugga í Silverstone. ap
Kovalainen var brosmildur eftir tímatökurnar í Silverstone.
Kovalainen var brosmildur eftir tímatökurnar í Silverstone. ap
Räikkönen (t.h.) samgleðst landa sínum Kovalainen að tímatökunum loknum.
Räikkönen (t.h.) samgleðst landa sínum Kovalainen að tímatökunum loknum. ap
Webber var á ráspól í nokkrar sekúndur í Silverstone.
Webber var á ráspól í nokkrar sekúndur í Silverstone. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert