Hamilton fyrsti Englendingurinn sem sigrar í 13 ár

Hamilton hleypur fagnandi út á verðlaunapallinn í Silverstone.
Hamilton hleypur fagnandi út á verðlaunapallinn í Silverstone. ap

Lewis Hamilton á McLaren var í þessu að vinna yfirburðasigur í breska kappakstrinum í Silverstone, við mikinn fögnuð 129.000 áhorfenda. Er hann fyrsti enski ökuþórinn til að vinna mótið í 13 ár, eða frá 1995. Með úrslitunum eru þrír ökumenn efstir og jafnir að stigum í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

Annar í mark varð  Nick Heidfeld á BMW og Rubens Barrichello á Hondu nýtti sér að vera reynslumesti ökumaður sögunnar í formúlu-1 og krækti  í þriðja sæti með klóku dekkjavali. Var hann tvímælalaust maður mótsins, hóf keppni í 16. sæti, féll úr leik í fyrstu lotu tímatökunnar í gær.

Þegar aðstæður voru hvað erfiðastar í brautinni pantaði hann full regndekk í stað millidekkja sem aðrir létu sér duga. Hárrétt ákvörðun því hann var um 10 sekúndum fljótari á hring en keppinautarnir nokkra næstu hringi og vann sig um skeið upp í annað sæti, en varð síðar að gefa eftir fyrir Heidfeld í þjónustustoppi.

Með árangri sínum komst Barrichello í fyrsta sinn á verðlaunapall frá í bandaríska kappakstrinum 2005.

Hamilton hefur gert regin mistök í tveimur síðustu mótum og sætt fyrir vikið harðri gagnrýni breskra fjölmiðla. Í dag drottnaði hann hins vegar við erfiðar aðstæður svo að minnti á Michael Schumacher. Kom hann rúmri mínútu á undan næsta manni í mark.

Hamilton hóf keppni fjórði en skaust með fantagóðri ræsingu fram úr Kimi Räikkönen og Mark Webber og upp að hlið liðsfélaga síns Heikki Kovalainen, sem hóf keppni af ráspól. Nokkra fyrstu hringina varðist sá síðarnefndi hörðum atlögum Hamiltons en á endanum hafði sá enski betur; skellti sér fram úr á leið inn í Stowe-beygjuna á fimmta hring. Eftir það tók hann bókstaflega á rás og hvarf sjónum keppinautanna.

Ferrari og Renault hentu frá sér verðlaunasætum með taktískum mistökum í fyrsta þjónustustoppi. Þrátt fyrir vætu kusu Kimi Räikkönen og Fernando Alonso að skipta ekki um dekk, eins og allir aðrir gerðu. Tóku áhættu á því að brautin væri að þorna en á því hefðu þeir grætt. Veðurfræðingar liðanna tveggja brugðust því nokkrum mínútum síðar gerði nýja skúr og meistararnir tveir áttu erfitt með að fóta sig á svellinu og misstu hvern manninn af öðrum fram úr sér.

Nokkrum hringjum seinna óku þeir að nýju inn að bílskúr og fengu ný dekk. Báðir breyttu keppnisáætluninni og létu fylla bíla sína til að duga til loka kappakstursins sem var tæplega hálfnaður. Með því tókst báðum að minnka skellinn en Räikkönen varð á endanum fjórði og Alonso sjötti.

Allt á afturfótunum hjá Ferrari

Allt gekk á afturfótunum hjá Felipe Massa hjá Ferrari. Snarsneri hann bílnum hvorki meira né sex sinnum á leiðinni. Varð hann síðastur þeirra sem luku keppni, eða 13, tveimur hringjum á eftir Hamilton. Räikkönen snarsneri einnig nokkrum sinnum en komst ætíð klakklaust áfram.

Aðstæður í Silverstone settu mark sitt á kappaksturinn. Vegna vætunnar runnu bílarnir til og frá í beygjum og hvað eftir annað út fyrir braut. Luku margir keppni í malargryfjunum; tveir strax á fyrsta hring, David Coulthard og Red Bull og Sebastian Vettel á Toro Rosso.

Þrír jafnir að stigum

Með úrslitunum í Silverstone hefur keppnin um heimsmeistaratitil ökuþóra sjaldan verið jafnari. Þrír ökumenn eru með 48 stig hver, Hamilton, Räikkönen og Massa,  og sá fjórði, Roberte Kubica hjá BMW, með 46 stig. Akstursmistök komu í veg fyrir að hann aflaði sér stiga í dag þar sem hann var meðal margra er misstu vald á bílnum í bleytunni og hafnaði úti í malargryfju.

Hamilton telst efstur út á fimmta besta mótsárangur sinn í ár, tíunda sætið í franska kappakstrinum í Magny-Cours. Þeir Massa hafa hvor um sig unnið þrjú mót í ár, orðið einu sinni hvor í öðru sæti og einu sinni í því þriðja. Báðir hafa jafnframt einu sinni hvor lokið keppni í fimmta sæti. Því varð að fara enn dýpra í árangur þeirra til að sjá hvor teldist framar. Hafði Hamilton þá betur því fimmti besti árangur Massa í ár var þrettánda og síðasta sætið í Silverstone í dag!

Räikkönen telst þriðji þar sem hann hefur unnið einu móti færra en keppinautarnir, eða tvö. Hann hefur þó verið jafn oft og þeir á verðlaunapalli, tvisvar fyrir annað sætið og einu sinni fyrir það þriðja.

McLaren styrkti stöðu sína í keppni bílsmiða gagnvart Ferrari og BMW, hlaut 15 stig í dag gegn átta stigum BMW og fimm stigum Ferrari, sem er efst með 96 stig. BMW hefur 82 og McLaren 72.

Úrslit kappakstursins í Silverstone

Staðan í stigakeppni ökumanna og bílsmiða

Liðsmenn McLaren fagna Hamilton á mark í Silverstone.
Liðsmenn McLaren fagna Hamilton á mark í Silverstone. ap
Barrichello fagnar fyrsta pallsæti sínu í þrjú ár.
Barrichello fagnar fyrsta pallsæti sínu í þrjú ár. ap
McLarenþórarnir (Hamilton t.v. og Kovalainen t.h.) háðu harða keppni um …
McLarenþórarnir (Hamilton t.v. og Kovalainen t.h.) háðu harða keppni um forystuna fyrstu hringina í Silverstone. ap
Verðlaunahafar í Silverstone, f.v., Heidfeld, Hamilton og Barrichello.
Verðlaunahafar í Silverstone, f.v., Heidfeld, Hamilton og Barrichello. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert