Renault eygir fjórða sætið

Mikið reynir á gömlu liðsfélagana Jarno Trulli (t.v.) og Fernando …
Mikið reynir á gömlu liðsfélagana Jarno Trulli (t.v.) og Fernando Alonso í keppni Toyota og Renault. reuters

Renaultliðið hefur herst í þeim ásetningi sínum, eftir góða frammistöðu í tveimur síðustu mótum, í Búdapest og Hockenheim, að vinna fjórða sætið í keppni bílsmiða formúlu-1 í ár.

Með árangrinum í þýsku og ungversku mótunum er Renault komið í slaginn um fjórða sætið. Hefur færst upp um nokkur sæti og er nú í því fimmta, aðeins fjórum stigum á eftir Toyota.

„Minnist þess að brautin í Ungverjalandi er mjög einstök og þótt Fernando [Alonso] hafi gert stórkostlega hluti með því að halda Räikkönen fyrir aftan sig fram í seinna þjónustustopp, þá endurspeglar það ekki hraða bílanna tveggja,“ segir verkfræðistjóri Renault,  Pat Symonds.

„Vissulega sýndi Räikkönen mun meiri hraða en við eftir að hann losnaði úr greipum okkar. Hafandi sagt það þá sýndum við aukinn hraða og batnandi bíl alla helgina. Því styrkir árangurinn í Búdapest okkur í trúnni um að við séum á uppleið og mig í trúnni á að við getum komist í fjórða sætið á þriðja hraðskreiðasta bíl formúlunnar fyrir vertíðarlok.

Við sáum BMW eiga slaka helgi en Toyota góða en held sagt að styrkleiki liðanna breytist ekki svo skyndilega. Vissulega eru ákveðin framvinduteikn; áberandi framfarir hjá okkur, smávegis afturför hjá BMW og sveiflur í getu Toyota. Hvert mót breytir stöðunni örlítið, styrkir þá framvindu sem verið hefur að mótast um nokkurt skeið,“ segir Symonds.

Red Bull vill líka fjórða sætið

Ef áætlanir Red Bull-liðsins ná fram að ganga þá verður keppnin um fjórða sætið hörð. Eftir öfluga byrjun vertíðar hefur liðið átt slöku gengi að fagna í allra síðustu mótum - hefur ekki unnið stig í síðustu fjórum og misst fyrst Toyota og síðan Renault upp fyrir sig.

Ökuþórinn Mark Webber segir liðsmenn hins vegar afar einbeitta í þeim ásetningi sínum að vinna fjórða sætið.  „Það er háleitt markmið og gaman yrði að ná því,“ segir Webber við akstursíþróttaritið Autosport.

Hann bætir við að liðseigandinn Dietrich Mateschitz ætlist til þess af liðinu að það verði í fjórða sæti. „Það er aukalegur þrýstingur. Við vitum hvað við verðum að reyna að afreka, en ég efast þó um að hann reki okkur alla ef við höfnum í fimmta sæti í staðinn,“ segir Webber.

Alonso var öflugur í Búdapest.
Alonso var öflugur í Búdapest. reuters
Piquet á leið til sjötta sætis í Búdapest.
Piquet á leið til sjötta sætis í Búdapest. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert