Meðalaldur aldrei jafn lágur

Fyrstu þrír í Monza, hafa allir unnið sinn fyrsta sigur …
Fyrstu þrír í Monza, hafa allir unnið sinn fyrsta sigur í ár (f.v.) Kovalainen, Vettel og Kubica. ap

Meðalaldur fyrstu þriggja ökuþóra í mark í formúlu-1 kappakstri hefur aldrei verið jafn lágur og í Monza í gær. Var meðalaldur Sebastians Vettel, Heikki Kovalainen og Roberts Kubica 23 ár, 11 mánuðir og 16 dagar.

Verðlaunahafarnir í gær eiga það sameiginlegt að hafa allir þrír unnið sinn fyrsta kappakstur í formúlu-1 í ár. Síðast unnu þrír ökumenn jómfrúarkappakstur sinn á vertíðinni 2003.

Þar áttu í hlut Kimi Räikkönen hjá McLaren, Giancarlo Fisichella hjá Jordan og Fernando Alonso hjá Renault.

Það endurspeglar ungan aldur ökumanna í ár, að næst „yngsti“ verðlaunapallurinn var aðeins tæpra tveggja mánaða gamall, eða frá í þýska kappakstrinum í Hockenheim. 

Á honum stóðu Lewis Hamilton, Nelson Piquet yngri og Felipe Massa. Meðalaldur þeirra var þá 24 ár, sjö mánuðir og einn dagur. 

Vettel, sigurvegari gærdagsins, varð um helgina yngsti sigurvegari sögunnar í formúlu-1 og jafnframt yngsti ökumaðurinn til að vinna ráspól. Eitt met á hann til viðbótar frá í fyrra, en þá varð hann – í jómfrúarkappakstri sínum – yngsti ökumaðurinn til að vinna stig í móti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert