Áfrýjun McLaren góð og gild

Hamilton og lögmenn McLaren yfirgefa stöðvar FIA í París þegar …
Hamilton og lögmenn McLaren yfirgefa stöðvar FIA í París þegar hlé var gert á réttarhöldum vegna hádegisverðar. ap

Áfrýjun McLarenliðsins vegna refsingar, sem Lewis Hamilton var beittur í belgíska kappakstrinum, er góð og gild og tæk til dóms. Það var niðurstaða dómara áfrýjunardómstóls Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA).

Dómurinn situr að störfum í París í dag. Megin umfjöllunarefnið fyrir hádegi var hvort áfrýjunin væri tæk samkvæmt lögum og reglum FIA, en fulltrúar sambandsins höfðu gefið til kynna að svo væri ekki.

Hamilton er viðstaddur réttarhaldið sem aðal vitni McLaren, en á hádegi var röðin ekki komin að honum enn að standa í vitnastúku. Auk hans flytja málið framkvæmdastjóri liðsins og lögfræðingar þess.

Í áfrýjunardómstól FIA sitja að þessu sinni fimm dómarar, frá Spáni, Mónakó, Austurríki, Hollandi og Sviss.

Lögmaður McLaren hefur flutt upphafsræðu sína og staðhæfði að Hamilton hafi ekki hagnast á því að skera beygju seint í belgíska kappakstrinum.

„Milljónir áhorfenda sá Lewis Hamilton koma fyrstan í mark í Spa 7. september. Milljónir sáu Lewis Hamilton fljótasta manninn í brautinni þegar rigndi.

Á því augnabliki var það aðeins spurning hvenær en ekki hvort hann myndi aka fram úr Kimi Räikkönen. Í bleytunni var Kimi Räikkönen algjörlega berskjaldaður. Heimsbyggðin sá Hamilton taka við sigurlaunum á verðlaunapalli, og síðan blaðamannafundinn eftir kappaksturinn.

Um tveimur stundum seinna ákváðu dómarar kappakstursins að bæta 25 sekúndum við aksturstíma Lewis Hamilton, og með því færðu þeir hann niður í þriðja sæti úr því fyrsta. Þeir segja að Lewis Hamilton hafi skorið beygju og hagnast á því.

Sönnunargögnin munu sýna, að Lewis Hamilton afsalaði þeim hagnaði aftur til Kimi Räikkönen. Þegar þeir óku yfir marklínuna ók Hamilton á 6,7 km/klst minni ferð og var um skeið sjö metrum fyrir aftan hann.

Hefði hann haldið sig fyrir aftan Räikkönen gegnum beygjuna og síðan niður beina kaflann hefði hann tekið fram úr honum inn að fyrstu beygju. En Lewis Hamilton átti engra annarra kosta völ en fara flóttaleiðina en þá ákvörðun tók hann á síðasta augnabliki í beygjunni.

Það er beinlínis rangt að hann hefði getað bremsað og hægt þar ferðina. Hefði Kimi Räikkönen ekki knúið hann út úr brautinni hefði hann komist fram úr honum á beina kaflanum,“ sagði lögmaður McLaren í upphafsræðu sinni.

Spilað var fyrir réttinn upptaka af samtali sem átti sér stað milli keppnisstjóra McLaren, Dave Ryan, og keppnisstjóra mótsins,  Charlie Whiting, á þeim tíma er atvikið átti sér stað. Þar var staðfest að Hamilton hafi gefið eftir ávinning sinn.

Talstöðvarsamskiptin eru svohljóðandi:

Ryan: „Telur þú að þetta hafi verið í lagi? Hann skilaði stöðunni til baka.

Whiting: „Já, ég held það. Já.“

Ryan: „Þú ert á því að það hafi verið í lagi.“

Whiting: „Ég held þetta hafi verið í lagi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert