Alonso sterkastur í Fuji og Renault lét til sín taka

Alonso á undan Kovalainen á fyrstu hringjunum í Fuji.
Alonso á undan Kovalainen á fyrstu hringjunum í Fuji. ap

Fernando Alonso hjá Renault var í þessu að vinna japanska kappaksturinn í Fuji. Réð lögum og lofum frá fyrsta þjónustuhléi en þá vann hann sig fram úr Robert Kubica hjá BMW sem varð annar eftir mikla rimmu við Kimi Räikkönen hjá Ferrari á lokahringjunum. Mjög kvað að Renault því Nelson Piquet ók afar vel og varð fjórði.

Með þessu vinnur Alonso annan kappaksturinn í röð, en fyrir hálfum mánuði kom hann fyrstur í mark í Singapúr. Þá lék lánið við hann en engin heppni var í spilum nú. Heimsmeistarinn fyrrverandi sýndi sínar bestu hliðar með því að vinna sig fram úr Kubica og tryggja sér síðan nógu mikið forskot til að halda vænni forystu þegar seinni þjónustustoppum lauk.

Piquet útfærði sömuleiðis sína keppnisáætlun mjög vel, en hann hóf keppni í tólfta sæti. Undir lokin dró hann Kubica og Räikkönen uppi en varð af möguleika til að komast fram úr með akstursmistökum á miðjum hring.

Mikil umskipti hafa orðið hjá Renault miðað við fyrstu mót vertíðarinnar. Með sigri og fjórða sæti undirstrika Alonso og Piquet gríðarlegar framfarir Renault á vertíðinni. Sá fyrrnefndi hélt því fram fyrir mótið, að liðið væri nú það þriðja sterkasta í formúlunni, komið fram úr BMW. Erfitt verður að mæla því mót með frammistöðu Renault í Fuji.

Lítil breyting varð í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra vegna ófara Lewis Hamiltons hjá McLaren og Felipe Massa hjá Ferrari. Hamilton klúðraði ræsingunni og missti Räikkönen fram úr sér. Er hann reyndi að ná forystunni aftur í fyrstu beygju bremsaði hann eins seint og vera mátti og knúði sig aftur fram úr Räikkönen.

Dómurum þótti hann hafa knúið Räikkönen út úr brautinni og dæmdu hann í akstursvíti; akstur gegnum bílskúrareinina. Sjálfur þurfti Hamilton að hemla það skarpt gegnum beygjuna að hann fór hálfvegis út úr, sem gaf Kubica og Alonso tækifæri á að komast fram úr.

Í sóknartilraun á næsta hring vann Hamilton sig síðan fram úr Massa sem skar beygjuna og hélt áfram beint inn í hlið McLarenþórsins, sem snerist og féll niður í neðsta sæti. Fyrir þennan afstýranlega árekstur var Massa refsað, einnig með gegnumakstri.

Eftir kappaksturinn er staðan í einvígi Hamiltons og Massa nær óbreytt, Massa varð áttundi í mark og hlaut eitt stig en Hamilton ekkert þar sem hann varð 12.

Heikki Kovalainen var í þriðja sæti fram á 17. hring en þá varð vélarbilun í McLarenbíl hans, sú fyrsta á ferli hans í formúlu-1.

Jarno Trulli gladdi heimamenn með því að aka Toyotunni til fimmta sætis, en hann missti Piquet fram úr sér í seinna þjónustustoppi. Toro Rosso átti góðan dag með báða bíla í stigasæti. Sebastien Bourdais varð sjötti og  Sebastian Vettel sjöundi.

Með úrslitunum í Fuji endurheimti Ferrari forystuna af McLaren í stigakeppni bílsmiða. Hlutskipti McLaren var að hljóta engin stig í Fuji en hi ð sama henti Ferrari í síðasta móti, í Singapúr.

Þá er Renault á góðri leið með að stinga Toyotu af í keppninni um fjórða sæti í titilkeppni bílsmiða. Og Toro Rosso styrtki sömuleiðis stöðu sína í sjötta sæti, er átta stigum á undan móðurliðinu, Red Bull.

Úrslit kappakstursins í Fuji

Staðan í stigakeppni ökumanna og bílsmiða

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert