Webber: „Mjög sérstök stund“

Webber stóðst atlögur Barrichello í tímatökunum í Nürburgring.
Webber stóðst atlögur Barrichello í tímatökunum í Nürburgring. reuters

Mark Webber sagði það sérstaka stund fyrir sig að hafa unnið ráspól þýska kappakstursins í Nürburgring. Fagnaði hann sínum fyrsta ráspól á ferlinum. Kom hann best frá afar tvísýnni keppni þar sem veðrið í Eifelfjöllum tók völdin að hluta.  

Webber er fyrsti ástralski ökuþórinn til að vinna ráspól frá því Alan Jones gerði slíkt árið 1980. Lagði hann ökuþóra Brawn, Jenson Button og Rubens Barrichello, að velli svo og liðsfélaga sinn Sebastian Vettel. Þessir þrír eru allir ofar Webber að stigum í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

„Þetta er afar sérstakur dagur fyrir mér. Að ná ráspól . . . ég hef nokkrum sinnum verið nálægt því. Hér erum við nú, liðið hefur staðið sig frábærlega alla helgina og þurftum að taka á honum stóra okkar í tímatökunni.

Bíllinn virkar mjög vel hér en það var erfitt að lesa aðstæður og meta hvers þurfti, hvaða dekk skyldi nota. Þetta vart virkilega erfið tímataka að því leyti. Auðvitað kemur reynslan að góðum notum og maður hefur fullt af frábæru fólki í kringum sig,þess vegna unnum við ráspólinn,“ sagði Webber.

Hann sagði það nú takmark sitt að vinna úr stöðunni með það í huga að vinna jómfrúrsigur sinn í formúlu-1. Á árinu hefur hann þrisvar orðið annar í mark, þar af í tveimur síðustu mótum. Hann hefur fulla trú á að hann sé fær um að aka til sigurs á morgun.

„Það er vonandi, ég er í frábærri stöðu til að ná þeim áfanga. Þessir náungar [Button og Barrichello] hafa verið sterkir á keppnistíðinni og ég hlakka til keppninnar við þá. Ég ætla reyna vinna minn fyrsta sigur á morgun.

Við erum klárir í hvaða aðstæður sem er, en allt verður að ganga manni í haginn. Ég hef nokkrum sinnum verið nálægt því, orðið nokkrum sinnum í öðru sæti. Sú stund kann að koma, kannski á morgun, að ég sigri,“ sagði Webber.

Webber brosmildur á blaðamannafundi eftir tímatökurnar í Nürburgring.
Webber brosmildur á blaðamannafundi eftir tímatökurnar í Nürburgring. reuters
Ráspóllinn í Nürburgring er sá fyrsti sem Webber vinnur.
Ráspóllinn í Nürburgring er sá fyrsti sem Webber vinnur. reuters
Ökuþórar Brawn, Button og Barrichello, ætla að keppa til sigurs …
Ökuþórar Brawn, Button og Barrichello, ætla að keppa til sigurs við Webber í Nürburgring. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert