Alonso byrjar með sigri

Alonso og Massa fagna í mótslok í Barein.
Alonso og Massa fagna í mótslok í Barein. reuters

Fernando Alonso byrjaði eins og best hann gat kosið með Ferrari því hann ók til sigurs í fyrsta formúlukappakstri ársins, í Barein. Og Ítalir hafa tekið gleði sína aftur eftir slakt ár í fyrra því Felipe Massa varð í öðru sæti. Lewis Hamilton hjá McLaren  varð þriðji og Sebastian Vettel fjórði.

Sigurinn er sá 22. á ferli Alonso sem vann heimsmeistaratitil ökuþóra 2005 og 2006. Og fyrsti sigur hans frá í japanska kappakstrinum 2008. Þá var þetta 220. sigur Ferrari í formúlu-1 kappakstri en ekkert lið hefur jafn oft unnið mótssigur. 

Vettel leiddi kappaksturinn þar til hann var rúmlega hálfnaður með ökumenn Ferrari skammt á eftir. Virtist ætla að ráða ferðinni er mótorinn sveik skyndilega svo hann gat ekki nýtt aflið til fulls og von bráðar voru Ferrariþórarnir komnir fram úr. Og nokkrum hringjum seinna komst Hamilton einnig fram úr en eftir það tókst Vettel að halda sínu og kláraði í fjórða sæti.

Nico Rosberg og Michael Schumacher hjá Mercedes luku keppni í fimmta og sjötta sæti. Heimsmeistarinn fyrrverandi segist enn ryðgaður og þurfi meiri tíma til að finna gamla taktinn en hann keppir á ný eftir þriggja ára fjarveru.

Rosberg getur hins vegar ekki hugsað sér betri byrjun í rimmu við hinn fræga liðsfélaga sinn því hann sló honum við á æfingunum þremur í gær og fyrradag, í tímatökunum í gær og svo loks í kappakstrinum í dag.

Alonso hóf keppni þriðji en vann sig fram úr Massa í fyrstu tveimur beygjum. Og hann sleppti Vettel aldrei langt og var bilið milli þeirra einungis 1,5 sekúndur er keppnin var rúmlega hálfnuð. Á 34. hring af 49 hægði Vettel óvænt á sér á brautinni á upphafs- og endakaflanum og tilkynnti að hann fengi ekki fullt afl úr mótornum. Í ljós kom að bilun varð í pústgreinum Red Bull-bílsins.

Þar með var hann ekki aðeins sýnd veiði fyrir Alonso heldur gefin. Vandræði hans gátu Massa og Hamilton einnig nýtt sér, sem að framan segir. Og hafi Massa gert sér vonir um meira en annað sæti þá jók Alonso upp úr þessu ferðina all vel - setti m.a. hraðasta hring dagsins - og skóp sér fljótlega örugga forystu.

Hamilton var lengi vel á eftir Rosberg en vann sig fram úr honum við dekkjaskiptingar. Sömuleiðis skiptust þeir á sætum í stoppum sínum Jenson Button hjá McLaren og Mark Webber hjá Red Bull. Báðir voru þeir síðustu 15 hringina rétt á eftir Schumacher en fengu aldrei tækifæri til að leggja til atlögu við hann.

Undan bíl Webbers kom mikill reykmökkur í fyrstu beygjum og varð það til þess að Robert Kubica hjá Renault missti sjónar á keppinautum. Rakst hann utan í Adrian Sutil hjá Force India með þeim afleiðingum að báðir snarsneru á brautinni og töpuðu mörgum sætum. Kláruðu þeir í 11. og 12. sæti en hófu keppni í 9. og 10. sæti.

Liðsfélagi Kubica, nýliðinn Vitaly Petrov, kom á óvart með því að vinna sig úr 17. sæti í það 11. á fyrsta hring. Hann varð hins vegar að hætta keppni eftir 14 hringi vegna bilunar í fjöðrun.

Lotusbílarnir komust báðir í mark, ólíkt bílum hinna nýju liðanna, Hispania og Virgin. Í öllum tilvikum var um bilanir að ræða nema hjá Karun Chandhok sem klessti utan í vegg. Þá varð Sauber að kalla báða bíla sína inn vegna bilunar í vökvakerfi.

Niðurstaða kappakstursins varð sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll Tími
1. Alonso Ferrari 1:39.20.396
2. Massa Ferrari +16.099
3. Hamilton McLaren +23.182
4. Vettel Red Bull +38.713
5. Rosberg Mercedes +40.263
6. Schumacher Mercedes +44.180
7. Button McLaren +45.260
8. Webber Red Bull +46.308
9. Liuzzi Force India +53.089
10. Barrichello Williams +1:02.400
11. Kubica Renault +1:09.093
12. Sutil Force India +1:22.958
13. Alguersuari Toro Rosso +1:32.656
14. Hulkenberg Williams +1 hringur
15. Kovalainen Lotus +1 hringur
16. Buemi Toro Rosso +3 hringir
17. Trulli Lotus +3 hringir
Alonso getur vart hugsað sér betri byrjun með Ferrari en …
Alonso getur vart hugsað sér betri byrjun með Ferrari en sigur. reuters
Alonso á leið til sigurs með Massa skammt á eftir.
Alonso á leið til sigurs með Massa skammt á eftir. reuters
Vettel var ekki ógnað allt þar til mótorinn sveik hann …
Vettel var ekki ógnað allt þar til mótorinn sveik hann í miðri keppni. reuters
Í ræsingunni gaf Webber frá sér mikinn reyk en ekkert …
Í ræsingunni gaf Webber frá sér mikinn reyk en ekkert amaði samt að bílnum. reuters
Hamilton (t.h.) óskar sínum gamla félaga til hamingju með sigurinn.
Hamilton (t.h.) óskar sínum gamla félaga til hamingju með sigurinn. reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert