Vettel einráður - Alonso sækir á

Vettel fagnar sigri í Valencia.
Vettel fagnar sigri í Valencia. reuters

Sebastian Vettel hjá Red Bull fór með öruggan sigur af hólmi í Evrópukappakstrinum í Valencia. Áberandi er þó framför Ferrarifáksins því Fernando Alonso hrellti þá Mark Webber löngum og hafði annað sætið að lokum. 

Vettel lét tækifærið ekki úr hendi sleppa er hann tók af stað af ráspól og vann fljótt nógu mikið forskot til að Webber, er ræsti annar, gæti ekki brúkað hreyfivænginn til að leggja til atlögu við hann.

Aftur á móti vann Alonso sig bæði fram úr Lewis Hamilton hjá McLaren og liðsfélaga sínum Felipe Massa í ræsingunni og eftir það dró hann jafnt og þétt á Webber, uns hann komst fram úr með hjálp hreyfivængsins á 21. hring af 57.

Mikil herfræðibarátta var í gangi milli Ferrari og Red Bull og tókst Webber að endurheimta annað sætið aftur af Alonso í öðru dekkjastoppi. Baráttan milli þeirra eftir það í algleymi og sneri Alonso dæminu við í lokastoppinu. Út úr því kom hann rétt fyrir framan Webber, sem stoppaði þó nokkrum hringjum fyrr og búinn að ná upp hita í dekkin, en það nýttist þó Red Bull þórnum ekki.

Segja má að bílar Red Bull og Ferrari hafi verið í sérflokki og í samanburði við þá áberandi hversu dapran dag McLaren og Mercedes áttu. Virðist sem Ferrarifákurinn sé á góðri leið með að verða jafngóður bíl Red Bull sem er þó enn nokkuð snarpari í tímatökum - sem gerir gæfumun.

Sigurinn er sá sjötti sem Vettel vinnur á árinu og sá 16. á ferlinum. Um tíma virtist Alonso ætla draga hann uppi svo spennan jókst á ný. Komst í innan við þriggja sekúndna tæri við hann rétt eftir síðasta stoppið. En lengra komst hann ekki og virtust hörðu dekkin jafnvel nýtast Red Bull bílnum betur. Má því segja að sigur Vettels hafi því verið nokkuð öruggur.

Spænski ökuþórinn Jaime Alguersuari hjá Toro Rosso átti góðan dag. Hafnaði í áttunda sæti eftir að hafa byrjað í því 18. Hjálpaði til að hann stoppaði aðeins tvisvar til að skipta um dekk meðan flestir keppinautanna stoppuðu a.m.k. þrisvar.

Sergio Perez hjá Sauber freistaði þess einn að taka einungis eitt stopp. Litlu munaði að það dygði til stiga því hann lauk keppni í ellefta sæti.

Möguleikar Michaels Schumacher á stigum hurfu eins og dögg fyrir sólu er hann rakst utan í Vitaly Petrov á leið út úr fyrsta dekkjastoppi. Framvængur Schumachers lenti í dekkjum Renaultins svo Schumacher varð að fá nýjan. Féll við það niður í 22. sætið og varð á endanum í 17. sæti.

Niðurstaða kappakstursins varð annars sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll Tími
1. Vettel Red Bull 1:39.36.169
2. Alonso Ferrari +10.891
3. Webber Red Bull +27.255
4. Hamilton McLaren +46.190
5. Massa Ferrari +51.705
6. Button McLaren +1.00.000
7. Rosberg Mercedes +1.38.000
8. Alguersuari Toro Rosso hring eftir
9. Sutil Force India 1 hr. eftir
10. Heidfeld Renault 1 hr. eftir
11. Perez Sauber 1 hr. eftir
12. Barrichello Williams 1 hr. eftir
13. Buemi Toro Rosso 1 hr. eftir
14. Di Resta Force India 1 hr. eftir
15. Petrov Renault 1 hr. eftir
16. Kobayashi Sauber 1 hr. eftir
17. Schumacher Mercedes 1 hr. eftir
18. Maldonado Williams 1 hr. eftir
19. Kovalainen Lotus 2 hr. eftir
20. Trulli Lotus 2 hr. eftir
21. Glock Virgin 2 hr. eftir
22. D'Ambrosio Virgin 2 hr. eftir
23. Liuzzi Hispania 3 hr. eftir
24. Karthikeyan Hispania 3 hr. eftir
Sigri hrósandi kemur Vettel í mark í Valencia.
Sigri hrósandi kemur Vettel í mark í Valencia. reuters
Vettel og Alonso takast í hendur eftir keppnina í Valencia.
Vettel og Alonso takast í hendur eftir keppnina í Valencia. reuters
Alonso á undan Webber í Valencia í dag.
Alonso á undan Webber í Valencia í dag. reuters
Alguersuari átti góðan dag í Valencia.
Alguersuari átti góðan dag í Valencia. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert