Vettel heldur sínu striki

Vettel í vígahug í bílskúr Red Bull fyrir tímatökurnar í …
Vettel í vígahug í bílskúr Red Bull fyrir tímatökurnar í Singapúr. reuters

Sebastian Vettel hjá Red Bull var í þessu að vinna ráspól kappakstursins í Singapúr. Liðsfélagi hans Mark Webber varð annar og Jenson Button hjá McLaren þriðji þótt hann missti af síðustu tímatilrauninni. Er þetta 11. ráspóll Vettels á árinu og sá 26. á ferlinum.

Vettel var öflugur í öllum þremur lotum tímatökunnar en Webber og ökumenn McLaren ógnuðu honum þó alla tíð. En enginn átti svar við honum í lokin og því stendur heimsmeistarinn vel að vígi fyrir kappaksturinn á morgun. Getur hann landað titlinum annað árið í röð á morgun, að því tilskyldu að keppinautunum farnist eigi allvel.

Með þessu hafa ökumenn Red Bull unnið alla ráspóla ársins, sem er einstakur árangur. Vettel ók hraðast í öllum lotunum þremur. Meðan ökumenn McLaren og Ferrari flæktust hverjir fyrir öðrum í fyrri umferð lokalotunnar naut Vettel hreinnar brautar og setti í fyrri umferð hennar tímann sem dugði honum til ráspóls.

Þegar að síðustu tímatilrauninni kom var Lewis Hamilton hjá McLaren í öðru sæti. Hann komst hins vegar ekki úr bílskúrnum í tæka tíð og missti af henni. Á síðasta tímahring unnu bæði Webber og Jenson Button hjá McLaren sig fram úr og engu munaði að Fernando Alonso hjá Ferrari gerði hið sama, en allir bættu þeir sig þessir þrír á lokahringnum.

Bílarnir raðast þannig upp á rásmarkinu á morgun, að á fremstu rásröð verða tveir Red Bull, á þeirri næstu tveir McLaren, á þeirri þriðju tveir Ferrari og á þeirri fjórðu tveir Mercedes og á þeirri fimmtu tveir Force India. Er þetta afar óvenjuleg uppröðun.

Þrír ökumenn kusu að spara dekkjaforða sinn til morguns og óku ekkert í lokalotunni; Michael Schumacher hjá Mercedes og báðir ökumenn Force Indian, Adrian Sutil og Paul di Resta. 

Í fyrstu umferð tímatökunnar urðu Kamui Kobayashi hjá Sauber á slæm mistök í hlykknum í tíundu beygju. Fór of innarlega á bríkurnar með þeim afleiðingum að bíllinn tókst á loft og hafnaði á öryggisvegg. Hafði hann átt í erfiðleikum með þessa beygju á öllum æfingunum þremur fyrir tímatökurnar.

Niðurstaða þeirra - og þar með rásröð morgundagsins - varð annars sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll tími Bil
1. Sebastian Vettel Red Bull 1:44.381
2. Mark Webber Red Bull 1:44.732 +0.351
3. Jenson Button McLaren 1:44.804 +0.423
4. Lewis Hamilton McLaren 1:44.809 +0.428
5. Fernando Alonso Ferrari 1:44.874 +0.493
6. Felipe Massa Ferrari 1:45.800 +1.419
7. Nico Rosberg Mercedes 1:46.013 +1.632
8. Michael Schumacher Mercedes enginn tími
9. Adrian Sutil Force India enginn tími
10. Paul di Resta Force India enginn tími
11. Sergio Perez Sauber 1:47.616 +2.685
12. Rubens Barrichello Williams 1:48.082 +3.151
13. Pastor Maldonado Williams 1:48.270 +3.339
14. Sebastien Buemi Toro Rosso 1:48.634 +3.703
15. Bruno Senna Renault 1:48.662 +3.731
16. Jaime Alguersuari Toro Rosso 1:49.862 +4.931
17. Kamui Kobayashi Sauber enginn tími
18. Vitaly Petrov Renault 1:49.835 +3.438
19. Heikki Kovalainen Lotus 1:50.948 +4.551
20. Jarno Trulli Lotus 1:51.012 +4.615
21. Timo Glock Virgin 1:52.154 +5.757
22. Jerome D'Ambrosio Virgin 1:52.363 +5.966
23. Daniel Ricciardo Hispania 1:52.404 +6.007
24. Tonio Liuzzi Hispania 1:52.810 +6.413
Vettel á leið til besta tíma í tímatökunum í Singapúr.
Vettel á leið til besta tíma í tímatökunum í Singapúr. reuters
Þrír efstu í tímatökunum í Singapúr (f.v.), Webber, Vettel og …
Þrír efstu í tímatökunum í Singapúr (f.v.), Webber, Vettel og Button. reuters
Hamilton komst aðeins fyrri tímahringinn í lokalotunni.
Hamilton komst aðeins fyrri tímahringinn í lokalotunni. reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert