Rosberg vann fyrsta heimasigur sinn

Nico Rosberg hjá Mercedes var í þessu að vinna sigur í þýska kappakstrinum í Hockenheim, sem er og fyrsti sigur hans á heimavelli. Annar varð Valtteri Bottas á Williams og þriðji Lewis Hamilton hjá Mercedes sem hóf keppni í 20. sæti.

Rosberg hafði forystu frá fyrsta hring til þess síðasta og komst enginn í tæri við hann. Með sigrinum jók hann forystu sína á Hamilton í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökumanna í 14 stig.

Fjörug stöðubarátta var hins vegar um flest önnur sæti, eða það þriðja og aftur úr. Sáust þar margar frábærar glímur sem voru kappakstri til sóma þótt vöðvar hafi verið hnyklaðir á stundum til hins ítrasta og mikil áhætta tekin hvað eftir annað. Slíkt gefur keppninni gildi og áhorfendur fá eitthvað fyrir sinn snúð. 

Hamilton ók einstaklega kröftuglega og sótti stíft en herfræðimistök kunna hafa kostað hann annað sætið. Veðjaði hann á að öryggisbíll kæmi í brautina eftir að Sauberbíll Adrians Sutils snarsnerist og stoppaði í lokabeygjunni og skaust inn til sinna síðustu dekkjaskipta. Vogun vinnur og vogun tapar, eins og sannaðist nú því öryggisbíllinn var aldrei kallaður út og því notaði Hamilton dekkin mun lengur en þau þoldu og hafði ekki hraða til að komast fram úr Bottas á síðustu 5-6 hringjunum.

Finnski ökumaðurinn hjá Williams hafði sparað sín dekk á síðasta þriðjungi kappakstursins sem kom sér vel á fjórum til fimm síðustu hringjunum er hann ók grimmt á ný til að halda öðru sætinu. Jók hann ferðina og sá til þess að Hamilton kæmist aldrei nógu nálagt til að leggja til atlögu. Reyndist Mercedesbíllinn ekki hafa við Williamsbílnum á löngum beinum köflum þótt Hamilton nyti DRS-vængsins þar.

Keppninni lauk fyrir Felipe Massa hjá Williams eftir nokkur hundruð metra í fyrstu beygju eftir samstuð við Kevin Magnussen hjá McLaren. Verður að skrifa það á Massa sjálfan því hann skipti um veghelminga og óð inn í beygjuna þar sem Magnussen var innanvert og skullu bílar þeirra saman með þeim afleiðingum að Williamsbíllinn skaust út í malargryfju og sat þar fastur.

Sebastian Vettel og Fernando Alonso háðu grimmar glímur en sá fyrrnefndi kom á endanum í mark í fjórða sæti og Alonso í því fimmta. Á lokahringjunum háði hann harða bardaga við félaga Vettels, Daniel Ricciardo og reið reynsla eldri bardagamannsins baggamun í atinu við yngri bardagamanninn.

Herfræði liðanna var afar mismunandi. Fyrir utan Rosberg og Bottas var Nico Hülkenberg hjá Force India sá eini sem stoppaði aðeins tvisvar til dekkjaskipta. Hann varð í sjöunda sæti og hefur þar með unnið stig í öllum mótunum í ár.

Jenson Button hjá McLaren varð áttundi og Magnussen liðsfélagi hans níundi. Fyrsta tuginn í mark fyllti svo Sergio Perez hjá Force India en hann varð átta sekúndum á undan  Kimi Räikkönen í mark.

Räikkönen lét aðstoðarmenn sína heyra það í talstöðinni og undraðist hvers vegna þeir héldu sér í brautinni með ónýt og gagnslítil dekk undir bílnum. 

Til viðbótar við Massa féllu Romain Grosjean, Daniil Kvyat og  Adrian Sutil úr leik vegna bilana. Tilkomumikið var brottfall Kyvat því er eldur kviknaði í bílnum og hafði nær gleypt hann í sig er Kvyat steig upp úr honum utan brautar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert