Williams upp fyrir Ferrari

Williamsliðinu hefur farið ævintýralega fram frá í fyrra. Þá var …
Williamsliðinu hefur farið ævintýralega fram frá í fyrra. Þá var það í botnslag en í ár í toppslag. mbl.is/afp

Það var stór stund fyrir Williamsliðið í dag er það komst upp fyrir Ferrari í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, og það í Monza, heimavelli ítalska liðsins.

Það er að þakka góðri frammistöðu ökumannanna Felipe Massa og Valtteri Bottas í dag að Williams situr nú í þriðja sæti í keppni bílsmiða. Hefur 177 stig gegn 162 stigum Ferrari sem aflaði aðeins tveggja stiga með níunda sæti Kimi Räikkönen, en Fernando Alonso féll úr leik vegna vélarbilunar.

Eru þetta mikil umskipti fyrir Williams sem barðist meðal botnliðanna í fyrra og hlaut innan við tug stiga á allri vertíðinni.

Þá komst Bottas og upp í fjórða sæti í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökumanna í dag og vann sig fram úr Alonso, sem er fimmti. Á þeim munar einu stigi, 122:121.

„Það er mjög jákvætt fyrir okkur að taka fram úr Ferrari. Það er ævintýri líkast að sjá breytingarnar hjá Williams, frá í fyrra og þar til nú er við erum að keppa við stórliðin. Við munum slást vertíðina út í gegn og vonandi höldum við þriðja sætinu,“ sagði Massa um stöðuna í stigakeppninni eftir að hafa klárað keppni í Monza í dag í þriðja sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert