Hamilton efstur á annarri æfingu

Nico Rosberg hjá Mercedes í beygju í Sepang en hann …
Nico Rosberg hjá Mercedes í beygju í Sepang en hann ók hraðar á fyrri æfingunni en þeirri seinni. mbl.is/afp

Lewis Hamilton hjá Mercedes hefur jafnað sig af biluninni á fyrri æfingunni í Sepang í dag því á þeirri seinni setti hann hraðasta hring.

Liðfélagi hans Nico Rosberg varð nú þriðji en hann var fljótastur á fyrri æfingunni og ók þá hraðar en á þeirri seinni.

Besti hringur Hamiltons mældist 1:39,790 mínútur og næsthraðast fór Kimi Räikkönen hjá Ferrari sem hlaut tímann 1:40,163 sek. Var með öðrum orðum næstum 0,4 sekúndum lengur með hringinn.

Rosberg var svo 55 þúsundustu úr sekúndu á eftir Räikkönen á 1:40,218. Besti hringur morgunæfingarinnar, sem Rosberg náði, var 1:40,124 mín.

Daniil Kvyat hjá Red Bull setti fjórða besta tímann og skaut Williamsmönnunum Valtteri Bottas og Felipe Massa aftur fyrir sig. Kvyat var rúmleag 0,1 sekúndu frá tíma Rosberg og jafnlangt var hann á undan Bottas, sem var 0,1 sekúndu á undan Massa. 

Sebastian Vettel hjá Ferrari varð að gera sér sjöunda sætið að góðu en hann náði ekki að setja raunsannan tíma á mýkri dekkjagerðinni.

Fyrsta tuginn á lista yfir hröðustu hringi fylltu svo Max Verstappen hjá Toro Rosso, Marcus Ericsson hjá Sauber og Daniel Ricciardo hjá Red Bull.

Fernando Alonso hjá McLaren setti 16. besta tímann (1:42,506) og var rúmum 2,5 sekúndum frá tíma Hamiltons. Jenson Button var svo 0,1 sekúndu á eftir liðsfélaga sínum.

Lewis Hamilton sat hinn rólegasti í bílskúr Mercedes meðan tæknimenn …
Lewis Hamilton sat hinn rólegasti í bílskúr Mercedes meðan tæknimenn liðsins gerðu við vélarbilun hans. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert