Rosberg fór hraðast

Nico Rosberg fékk sér banana fyrir seinni æfinguna og varð …
Nico Rosberg fékk sér banana fyrir seinni æfinguna og varð fljótastur. mbl.is/afp

Nico Rosberg hjá Mercedes ók hraðast á seinni æfingu dagsins í Barein og liðsfélagi hans Lewis Hamilton næsthraðast. Í næstu sætum urðu svo Kimi Räikkönen og Sebastian Vettel hjá Ferrari.

Á fyrri æfingunni einbeittu Rosberg og Hamilton sér að langakstri og voru ekki í hópi 10 hraðskreiðust. Þetta breyttist á seinni æfingunni, þegar aðstæður líktust meira því sem búast má við í tímatökunni á morgun.

Besti tími Rosberg, á mýkri dekkjunum, mældist 1:34,647 mín., og var hann 0,1 sekúndu fljótari en hamilton, sem læsti dekkjunum illlilega í áttundu beygju í sinni lokatilraun.

Räikkönen ók hraðast á fyrri æfingunni en var hálfri sekúndu lengur í förum á seinni æfingunni en keppinautarnir hjá Mercedes. Vettel var síðan 0,1 sekúndu á eftir Räikkönen í fjórða sæti. Virtist hann á leið til miklu betri tíma en liðsfélaginn en tapaði tíma með villtum akstri upp á bríkur í lokabeygjunni.

Það bíður Hamilton og Räikkönen að ganga á fund dómara kappakstursins til að útskýra vafasamt framferði þar sem Marcus Ericsson hjá Sauber kom við sögu.

Valtteri Bottas hjá Williams setti fimmta besta tímann, rétt á undan Daniel Ricciardo hjá Red Bull og Pastor Maldonado hjá Lotus.

Felipe Nasr hjá Sauber varð svo áttundi, Daniil Kvyat hjá Red Bull níundi og Felipe Massa hjá Williams tíundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert