Bara Bottas með nýjan væng

Valtteri Bottas einbeittur í bíl sínum í Hungaroring.
Valtteri Bottas einbeittur í bíl sínum í Hungaroring. mbl.is/afp

Valtteri Bottas verður með nýjan framvæng á bíl sínum sem Williamsliðið hefur þróað. Aðeins eitt eintak er enn til og notast Felipe Massa því áfram við eldri útgáfu vængsins.

„Hjá okkur gildir sú regla, að ökumaður sem fleiri stig hefur unnið, hefur forgang að nýjum íhlut,“ segir Bottas við blaðið Turun Sanomat. Algengt er hjá liðum að hlutkesti sé látið ráða og önnur lið, til dæmis McLaren, fara þá leið að láta ökumennina njóta forgangs til skiptis.

Bottas og Massa hafa verið tiltölulega jafnir í stigaveiðinni og munar á þeim aðeins þremur stigum fyrir ungverska kappaksturinn. 

Williamsliðið gerir sér þær vonir að nýi vængurinn styrki keppnisbílinn gagnvart eiginleikum brautarinnar í Hungaroring. Óttast það að knöpp og bugðótt brautin henti FW37-bílnum ekki sem best.

„Við viljum þó ekki afskrifa helgina fyrirfram. Í fyrra varð ég þriðji hérna í tímatökum og kappaksturinn gekk einnig vel. Vonandi eykur nýi vængurinn vængpressu bílsins með þeim hætti sem við sækjumst eftir. Slíkt yrði til mikilla bóta,“ segir Bottas.

Valtteri Bottas á ferð í Hungaroring.
Valtteri Bottas á ferð í Hungaroring. mbl.is/afp
Valtteri Bottas á Williamsbílnum í Hungaroring.
Valtteri Bottas á Williamsbílnum í Hungaroring. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert