Froðusnakkar standi saman

Í þotunni „Air vindbelgir“ á leið til Sotsjí.
Í þotunni „Air vindbelgir“ á leið til Sotsjí.

Felipe Massa hvetur „froðusnakka“ formúlunnar til að standa saman sem ein heild og knýi sameinaðir á um betrumbætur á formúlu-1. 

Spenna hefur verið að vaxa milli ökumanna og alráðsins Bernie Ecclestone sem hvatt hefur ökumennina til að loka túlanum og tjá sig ekki um stjórnun íþróttarinnar. Þeir sem gagnrýndu stjórnarhættina væru „froðusnakkarar“, vindbelgir og blaðrarar.

Nico Rosberg sendi Ecclestone sneið af þessu tilefni; hópmynd af sameiginlegum kvöldverði ökumannanna í Sjanghæ í Kína. Í myndatexta sagði hann myndina vera frá samkomu „Sameinuðu vindbelgjanna“.       

Í gær birti hann svo aðra mynd til heiðurs Ecclestone á twittersíðu sinni. Að þessu sinni var hún af hópi ökumanna sem deildu einkaþotu til ferðarinnar til rússneska kappakstursins í Sotsjí.

„Air vindbelgir er lent heilu og höldnu í Sotsjí,“ sagði Rosberg. Auk hans voru í þotunni, Alex Wurz, formaður félags ökumanna formúlunnar, Nico Hülkenberg, Jean-Eric Vergne, Daniel Ricciardo, Esteban Gutierrez, David Coulthard og Massa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert