Bjóst ekki við að bilið minnkaði hratt

Lewis Hamilton og aðstoðarmenn hans hjá Mercedes fagna sigri í …
Lewis Hamilton og aðstoðarmenn hans hjá Mercedes fagna sigri í kanadíska kappakstrinum í Montreal. AFP

Lewis Hamilton segist aldrei hafa látið sig dreyma um að geta minnkað bilið í Nico Rosberg í keppninni um titil ökumanna eins hratt og raun hefur orðið á.

Hamilton var 43 stigum á eftir liðsfélaga sínum hjá Mercedes eftir Spánarkappaksturinn en þar féllu þeir báðir úr leik eftir samstuð í fyrstu beygju. Hefur hann hins vegar unnið mótin tvö í millitíðinni og það ásamt óförum Rosberg í báðum mótunum hefur forskot Rosberg minnkað í níu stig.

Til Evrópukappakstursins í Bakú í Azerbajdzhan um komandi helgi fer Hamilton með það eitt að markmiði að vinna þar sinn þriðja sigur í röð á árinu. „Eftir fimm fyrstu mótin hefði ég aldrei getað spáð að ég yrði aftur mættur í titilslaginn svo hratt,“ segir Hamilton.

Þrátt fyrir að hafa landað aðeins 16 stigum í tveimur síðustu mótum kvest Rosberg ekki munu breyta því hvernig hann gengur til verka. „Ég er í titilkeppninni til að vinna hana, ekki til að sætta mig við annað sætið,“ segir Rosberg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert