Sleppur við bann vegna blótsyrða

Afsökunarbréfið dugar Sebastian Vettel til að sleppa við refsingu fyrir …
Afsökunarbréfið dugar Sebastian Vettel til að sleppa við refsingu fyrir reiðilesturinn í Mexíkó. AFP

Sebastian Vettel hjá Ferrari sleppur við refsingu fyrir upphlaup sitt í talstöðinni á síðustu hringjum mexíkóska kappakstursins þar sem hann hefur sent Alþjóða akstursíþróttasambandinu (FIA) afsökunarbréf.

Í reiði sinni í stöðubardaga við Max Verstappen hjá Red Bull sagði Vettel meðal annars keppnisstjóranum Charlie Whiting að „fara í rasssgat“.

Heimildarmaður hjá FIA tjáði fréttaveitu Reuters í dag, að ferfaldi heimsmeistarinn yrði ekki kallaður fyrir gerðardómstól sambandsins. Tekur rétturinn fyrir agabrot sem eftirlitsdómarar móta vísa frá sér og til hans.

FIA-maðurinn segir hins vegar að Vettel yrði gert það ljóst, að tekið yrði harkalega á öðru reiðikasti af þessu tagi af hans hálfu.

Vettel reiddist því að dómarar kappakstursins skyldu ekki skipa Verstappen tafarlaust að gefa eftir þriðja sætið eftir að hann ók út á öryggissvæði á þriðja síðasta hring og stytti sér þannig leið framhjá beygju sem hann náði ekki. Var það ekki fyrr en eftir kappaksturinn sem dómararnir refsuðu Verstappen.

Vettel hlaut við það þriðja sætið en síðar var honum einnig refsað fyrir ólöglega vörn í glímu við félaga Verstappen, Daniel Ricciardo. Við það féll hann niður í fimmta sæti, aftur fyrir Ricciardo, sem varð þriðji þótt fimmti kæmi í mark, og Verstappen.

Á sínum tíma vann Vettel titla sína sem liðsmaður Red Bull. Hann hefur átt afar brösugt og erfitt ár hjá Ferrari. Hefur hann aldrei komist í tæri við sigur í mótunum 19 sem lokið er í ár. Aðeins tvö mót eru eftir, í Sao Paulo í Brasilíu og Abu Dhabi við Persaflóa.

Sebastian Vettel tekur fram úr Daniil Kvyat í kappakstrinum í …
Sebastian Vettel tekur fram úr Daniil Kvyat í kappakstrinum í Mexíkó. AFP
Sebastian Vettel þurfti að skila verðlaunagripnum sem að lokum féll …
Sebastian Vettel þurfti að skila verðlaunagripnum sem að lokum féll Daniel Ricciardo í skaut. AFP
Sebastian Vettel (t.h.) og Fernando Alonso í rimmu í Mexíkó.
Sebastian Vettel (t.h.) og Fernando Alonso í rimmu í Mexíkó. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert