Gæti unnið titilinn um helgina

Nico Rosberg svarar spurningum á blaðamannafundi í Sao Paulo í …
Nico Rosberg svarar spurningum á blaðamannafundi í Sao Paulo í gær. AFP

Nico Rosberg hjá Mercedes á möguleika á því að tryggja sér heimsmeistaratitil ökumanna í Brasilíukappakstrinum um helgina.

Fyrir mótið hefur hann 19 stiga forskot á liðsfélaga sinn Lewis Hamilton og þarf annað hvort að vera með 25 eða 26 stiga forskot í mótslok til að vera öruggur með titilinn.

Fari Rosberg með sigur af hólmi í Interlagosbrautinni í Sao Paulo þriðja árið í röð hampar hann titlinum, alveg óháð því hvaða sæti Hamilton klárar kappaksturinn í.

Með sigri væri Rosberg kominn með 374 stig og Hamilton með 348 að því gefnu að hann yrði annar. Þar með væri Rosberg með 26 stigum meira fyrir lokamótið í Abu Dhabi og aðeins 25 stig eftir í pottinum að hámarki.

Yrði Rosberg annar um helgina þyrfti forskot hans að vera 25 stig fyrir lokamótið til að vinna titilinn fyrsta sinni. Sá munur næst ekki nema Hamilton verði fjórði í Brasilíu. Þó svo það forskot þurrkaðist upp í lokamótinu með sigri Hamiltons og brottfalli Rosberg þá ynni sá síðarnefndi titilinn út á betri árangur á árinu.

Rosberg hefur unnið níu mót en Hamilton sjö. Sá fyrrnefndi hefur tvisvar orðið annar en Hamilton þrisvar. 

Þetta kann allt að hljóma flókið en Rosberg verður heimsmeistari í Sao Paulo að því gefnu að niðurstaða kappakstursins verði á einhvern eftirfarandi vegu:

Hann vinni kappaksturinn
Hann verði annar og Hamilton fjórði eða aftar
Hann verði þriðji og Hamilton í sjötta sæti eða aftar
Hann verði fjórði og Hamilton áttundi eða aftar
Hann verði fimmti og Hamilton níundi eða aftar
Hann verði sjötti og Hamilton tíundi eða aftar.

Þeir sátu fyrir svörum í Sao Paulo í gær (fremri …
Þeir sátu fyrir svörum í Sao Paulo í gær (fremri röð f.v.) Lewis Hamilton, Felipe Massa, Nico Rosberg. Í aftari röð (f.v.) Daniel Ricciardo, Sebastian Vettel og Max Verstappen. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert