Rosberg heimsmeistari

Feðgarnir Nico Rosberg (t.v.) og Keke Rosberg.
Feðgarnir Nico Rosberg (t.v.) og Keke Rosberg. AFP

Nico Rosberg hjá Mercedes var í þessu að vinna heimsmeistaratitil ökumanna í formúlu-1 og það þrátt fyrir taktík liðsfélaga hans sem gekk út á að hægja ferðina og gera keppinautum kleift að nálgast Rosberg og komast fram úr.

Titillinn er sá fyrsti sem Rosberg vinnur en hann háði harðan slag um tign þessa 2014 og 2015. Lewis Hamilton hafði betur bæði árin en verður nú að sjá á eftir titlinum til liðsfélaga síns.

Rosberg er sonur fyrrum heimsmeistara í formúlu-1, finnska ökumannsins Keke Rosberg, sem ók fyrir Williams er hann vann titilinn 1982. Aðeins eitt dæmi var til áður um feðga sem meistara, Graham Hill og Damon Hill, en sá síðastnefndi vann titilinn 1996 sem liðsmaður Williams. 

Til að hreppa titilinn hefði Hamilton þurft að vinna sigur og treysta á að Rosberg yrði ekki í hópi þriggja fremstu. Því reyndi hann mjög að koma til leiðar sjálfur með því að hægja ferðina á brautarköflum sem útilokað var að taka fram úr. Nálguðust því keppinautarnir Sebastian Vettel hjá Ferrari og Max Verstappen hjá Red Bull óðfluga á  síðustu hringjunum. Fyrir bragðið var gríðarleg spenna í keppninni síðustu 10-15 hringina.

Ofan í kaupið virti Hamilton ekki ítrekaðar beiðnir stjórnenda liðsins um að hífa upp hraðann og spurning er hvort hann eigi eftir að bíta úr nálinni með það.

Hamilton vann kappaksturinn, þann tíunda á árinu. Ökumaður með jafn marga mótssigra hefur aldrei þurft að lúta í lægra haldi í titilkeppni. Rosberg varð annar, Vettel þriðji, Verstappen fjórði, liðsfélagi hans Daniell Rricciardo fimmti og sjötti var Kimi Räikkönen hjá Ferrari.

Í sætum sex til tíu urðu Nico Hülkenberg og Sergio Perez hjá Forece India, Felipe Massa hjá Williams og Fernando Alonso hjá McLaren.

Lewis Hamilton vinnur kappaksturinn í Abu Dhabi en rétt á …
Lewis Hamilton vinnur kappaksturinn í Abu Dhabi en rétt á eftir eru Nico Rosberg, Sebastian Vettel og Max Verstappen. AFP
Nico Rosberg í kappakstrinum í Abu Dhabi í dag.
Nico Rosberg í kappakstrinum í Abu Dhabi í dag. AFP
Damon Hill (t.v.) og faðir hans Graham Hill.
Damon Hill (t.v.) og faðir hans Graham Hill. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert